20.6.2016 16:00

Mánudagur 20. 06. 16

 

Lokadagar baráttunnar um aðild Breta að Evrópusambandinu einkennast af hörkunni sem sett hefur svip sinn á umræður undanfarinna vikna. Hrakspár aðildarsinna snúast að mestu um fjármál og efnahagsmál, fjármálamarkaði og viðskipti. Það er hins vegar óttinn við að evru-samstarfið muni breyta ESB í sambandsríki sem fælir áhrifamikla Breta frá sambandinu. Má þar til dæmis jafnaðarmanninn Owen lávarð, David Owen, fyrrverandi utanríkisráðherra Breta.

Í ríkissjónvarpinu var að kvöldi sunnudags 19. júní rætt við Eirík Bergmann, stjórnmálafræðiprófessor á Bifröst, sem sagði ESB-baráttuna í Bretlandi „alveg skelfilega“ hún einkenndist af „hræðslupólitík á báða bóga og [væri] í rauninni [...] algjörlega óboðleg fyrir lýðræðislega umræðu. Það er eins og báðir ætli að hræða breskan almenning til hlýðni“.

Því miður er þetta reynsla fleiri þjóða sem ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu, minnumst Icesave-atkvæðagreiðslnanna hér. Það er blekking að ímynda sér að tíðari þjóðaratkvæðagreiðslur mildi þjóðfélagsumræður. Þær verða þvert á móti skarpari hvort sem það dugir til að skýra flókin mál eða ekki. Við ákvörðun um ráðstöfun á atkvæði vegur skynjun þyngra en þekking. Þetta vita áróðursmenn, þess vegna er meira höfðað til tilfinninga en staðreynda.

Eiríkur segir Breta helstu viðskiptaaðila Íslendinga og fari þeir úr ESB færist sambandið fjær okkur og „umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu þagni, í það minnsta í bráð“. Fullyrðing prófessorsins er reist á þeirri skoðun að viðskiptahagsmunir móti afstöðu Íslendinga til ESB. Þetta er of þröng túlkun. Hér eins og í Bretlandi ræður mestu óttinn við að sogast inn í evrópskt sambandsríki og glata fullveldi. David Cameron forsætisráðherra segist hafa reist skorður við þeirri þróun með nýjum aðildarskilmálum. Treysta Bretar því? Það kemur í ljós.

Úrsögn Breta skapar nýja pólitíska stöðu á N-Atlantshafi með Noreg, Ísland og Bretland utan ESB. Aðild að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, er augljósasti kosturinn fyrir Breta til að leggja grunn að aðild að innri markaði ESB utan sambandsins. Hitt skal ekki útilokað að ESB taki á sig nýja, frjálslegri mynd til að forða því að hræðslan við ofurvalds-Brusselmenn án lýðræðislegs umboðs  hvetji fleiri ESB-þjóðir til að fara í fótspor Breta. Það er hið nýja eðli ESB sem hræðir ekki hvað verður um banka eða kaupsýslumenn. Sagan sýnir að þeir finna alltaf leið til að bjarga sér.