18.6.2016 19:30

Laugardagur 18. 06. 16

Marseille-völlurinn, Vélodrome, sem var vettvangur leiks Íslands og Ungverjalands í dag er stræsti knattspyrnuvöllur Frakkands og geta rúmlega 67.000 manns horft á leiki hans. Frönsk blöð segja 64.000 hafa verið á vellinum sem hafi glatt Marseille-búa, þeir hafi óttast að ekki yrði mikill áhugi á leik með íslensku nýliðunum og Ungverjum. Raunin hafi orðið önnur, einkum hafi Ungverjar fjölmennt og sett mikinn svip á borgina.  

Leiknum lauk 1:1. Ungverjar náðu að jafna undir lok leiksins, á 88. mínútu, leikurinn var framlengdur um 4 mínútur. Gylfi Þór Sigurðsson sagði eftir leikinn að einbeitingu hefði skort undir lokin. Nú er þess beðið sem gerist miðvikudaginn 22. júní í leiknum gegn Austurríkismönnum í París.

Eftir leikinn er í EM-sjónvarpsstofunni rætt við sérfræðing hennar í knattspyrnu. Hann vill ekki dæma neinn of hart en taldi þennan leik slakari af Íslands hálfu en þegar keppt var við Portúgala þriðjudaginn 14. júní.

Hér skal ekki deilt við sérfræðinginn um mat hans. Á hinn bóginn mætti stundum ætla að hann sé vanari að ræða um knattsyrnu á ensku en íslensku miðað við slettur eins og „task“, „winner attitude“ og „mentaly“ svo að aðeins þrjú dæmi séu tekin. Hann vandaði sig þó mikið undir lok samtalsins í dag. Knattspyrnumálið er greinilega ensku skotið.

Í Le Monde segir að Íslendingar hafi haldið að þeir mundu vinna „sögulegan sigur“ í leiknum við Ungverja en varnarmaðurinn Sævarsson hafi eyðilagt þann draum á 88. mínútu leiks þar sem Ungverjar hafi lagt sig alla fram um að ná verðskulduðu jafntefli. Íslendingar eigi eftir að iðrast að hafa eytt öllum seinni hálfleiknum í kringum eigið mark.

Kolbeinn Sigþórsson sagði við Le Figaro eftir leikinn að íslensku leikmennirnir litu á hann sem tapleik en þeir ættu enn eftir að láta að sér kveða í keppninni.