17.6.2016 18:00

Föstudagur 17. 06. 16

Samtal mitt við Davíð Oddsson forsetaframbjóðanda á ÍNN miðvikudaginn 15. júní er komið á netið og má sjá það hér. 

Kosturinn við að ræða við Davíð Oddsson er að hann hikar ekki við að segja hug sinn, rökstyður mál sitt og skilur þann sem hlustar ekki eftir í neinum vafa um afstöðu sína. Margir eiga erfitt með að kyngja því þegar hann tekur af skarið eða notar sterkar líkingar til að skýra sjónarmið sín.

Dæmi um viðkvæmni gagnvart málflutningi Davíðs má sjá í Morgunblaðinu í dag í grein eftir Þráin Friðriksson jarðvísindamann sem ber fyrirsögnina: Steingert skopskyn

Jarðvísindamaðurinn líkir Davíð Oddssyni við steingerving. Skýring hans á fyrirsögninni er þessi: „skopskyn æskunnar hafði frosið inni í hans persónuleika [vinar höfundar] eins og steingervingur lífveru sem lagðist til hinstu hvílu í mjúka botnleðjuna fyrir milljónum ára“. Segir Þráinn að Davíð sékyndilberi íslenskrar fyndni á árunum 1970 til 2004“.

Þráni finnst miður að Jón Gnarr hafi verið kallaður Jón Gunnar Kristinsson eða Jón Kristinsson  „í pistlum Davíðs í Morgunblaðinu“. Telur Þráinn sig geta fullyrt um höfund nafnlausra ritstjórnargreina blaðsins. Þráinn gefur til kynna að á landsfundum sjálfstæðismanna þori menn ekki annað en hlægja að fyndni Davíðs. Þráinn vorkenndi Davíð meira en Katrínu Jakobsdóttur þegar hún var kölluð „gluggaskraut“ í Morgunblaðinu. Verst þótti honum þó að Barack Obama skyldi kallaður múlatti á síðum Morgunblaðsins og gefur sér að það hafi verið gert til að niðurlægja Bandaríkjaforseta.

Fréttir af kosningafundum Davíðs Oddssonar eru á þann veg að þar skemmti menn sér vel enda er Davíð oft bráðfyndinn á slíkum fundum og segir ekki síður broslegar sögur af sjálfum sér en öðrum. Þráinn Friðriksson vill með grein sinni benda lesendum á að ekki sé við hæfi að hlægja að því sem Davíð Oddsson segir af því að hann hafi „steingert skopskyn“, sé einskonar steingervingur.

Það er undarlegt að maður með jafn háþróað skopskyn og Þráinn Friðriksson skuli verða miður sín þegar Katrínu Jakobsdóttur er líkt við „gluggaskraut“ en þykja með öllu ófyndið að líkja Davíð við steingerving. Grein Þráins er vissulega ekki fyndin en hún er hins vegar hlægilegt innlegg í forsetakosningabaráttuna.