12.6.2016 21:30

Sunnudagur 12. 06. 16

Píratar hafa fundað um helgina og var sagt frá því í kvöldfréttum ríkisins að aðalfundinum yrði fram haldið um næstu helgina. Ekki hefði tekist að ljúka þeim störfum sem vinna átti á fundinum. 

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður pírata, sagði í gær að ekki ætti að vinna að mótun stefnu á fundinum heldur hlusta á grasrótina. Á vefsíðunni ruv.is  sagði laugardaginn 11. júní:

„Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir stefnumál flokksins unnin í grasrótinni. Á aðalfundi Pírata sem fer fram nú um helgina er ekki unnið að stefnumálum fyrir komandi Alþingiskosningar.

„Grasrótin er í aðalhlutverki hjá Pírötum,“ segir Birgitta. Stefnumálin séu unnin frá grasrótinni og upp, og því sé ekki [svo!] aðalfundur ekki vettvangur stefnumótunar heldur grasrótarfundir og kosningakerfi Pírata. „Við viljum í alvöru að við búum til þannig stefnu að hún komi ekki frá einhverri elítu innan flokksins heldur frá þeim sem vilja taka þátt í að móta samfélagið með okkur,“ segir Birgitta.“

Þetta segir þingmaðurinn sem hefur boðað að semja beri stjórnarsáttmála með öðrum flokkum fyrir kosningar, ekki skuli kosið nema til 9 mánaða og nota beri þá til að breyta stjórnarskránni og kollsteypa stjórnarráðinu.

Í frétt af aðalfundi pírata á mbl.is sunnudaginn 12. júní segir að þar hafi verið kynntur „stefnumálahópur flokksins“ (elíta?). Þar sé fólk sem hafi tekið að sér að halda formlega um stefnumótunarvinnu fyrir alþingiskosningarnar í haust. Eftir að málin hafa verið valin verði það á hendi framkvæmdaráðs pírata og efstu manna á lista hjá flokknum að kynna málin opinberlega.

Í fréttum stangast þannig á orð Birgittu um grasrótina og tilkynning Sigríðar Bylgju Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra pírata, um stefnumálahóp.

Allt bendir til að áhrif Birgittu Jónsdóttur í forystu pírata minnki jafnt og þétt. Væri um annan flokk að ræða en pírata hefðu fréttamenn áreiðanlega vakið máls á þversögninni í fréttum af aðalfundi flokksins. Það er hins vegar staðreynd að sem stjórnmálaafl og flokkur eru píratar teknir allt öðrum tökum í fjölmiðlum en aðrir stjórnmálaflokkar.

Fjölmiðlar skulda kjósendum að skýra vel og ítarlega frá því sem gerist á aðalfundi pírata. Flokkurinn hefur mælst stærstur íslenskra stjórnmálaflokka um nokkurt skeið. Að láta eins og Birgitta Jónsdóttir tali fyrir flokksmenn er hluti af blekkingariðju í hennar þágu.