6.6.2016 16:15

Mánudagur 06. 06. 16

Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, skrifaði á sínum tíma upplýsandi bók um Icesave-samningana. Sunnudaginn 5. júní 2016 skrifaði hann enn um samningana á vefsíðu sína í tilefni þess að í Svavars-samningunum, fyrstu Icesave-samningnunum, var gert ráð fyrir að 5. júní 2016 hæfust greiðslur til lánardrottnanna Breta og Hollendinga á því sem stæði eftir heimtur úr búi Landsbankans. Sigurður Már segir:

„Ef Icesave-samningarnir, sem kenndir eru við Svavar Gestsson, hefðu verið samþykktir árið 2009 hefðu eftirstöðvar þeirra í dag, 5. júní, numið tæpum 208 milljörðum króna eða um 8,8% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins 2016. Sú fjárhæð hefði fallið á ríkissjóð og hefði verið til greiðslu í jöfnum ársfjórðungslegum afborgunum á næstu átta árum, eða um 26 milljarðar á ári ásamt vöxtum. Samningarnir kváðu ekki á um greiðslur umfram heimtur úr búi Landsbankans fyrr en eftir 5. júní 2016. Þetta kom fram í svari dr. Hersis Sigurgeirssonar á Vísindavef Háskóla Íslands 9. febrúar síðastliðin og verður að miða gengi við þá dagsetningu en greiðslur átti að inna af hendi í pundum og evrum.“

Bretar og Hollendingar höfnuðu þessum samningunum vegna fyrirvara sem Alþingi setti í lögin um þá, þeir komu því aldrei til framkvæmda. Ætlun Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra var að lauma þessum samningunum í gegnum þingið, helst umræðulaust. Einhver lak þeim í ómerktu umslagi til fréttastofu ríkisútvarpsins 17. júní 2009. Þar með var leyndin úr sögunni og því meira sem rætt var um málið þeim mun ljósara varð hvílíkt óheillaverk hafði verið unnið undir forystu Svavars Gestssonar þótt Steingrímur J. talaði um „glæsilega niðurstöðu“ í tengslum við starf Svavars.

Morgunblaðið birti viðtal við Svavar Gestsson 8. júní 2009 þar sagði:

„Svavar segir að ef reikningarnir hefðu ekki verið gerðir upp hefði allt innstæðutryggingakerfið í Evrópu hugsanlega hrunið. „Við erum í rauninni að bera burt syndir heimsins, eins og sagt var um Jesú Krist,“ segir Svavar.“

Svavar sagðist hafa heyrt, að allt hefði verið „skjálfandi og titrandi“, áður en hann kom að málinu „líka EES-samningurinn, þótt ég kunni þá sögu ekki nákvæmlega.“ Þetta varð fyrirsagnarefni Morgunblaðsins á forsíðu á þennan veg: „EES-samningurinn skalf og nötraði“.