5.5.2016 16:30

Fimmtudagur 05. 05. 16

 

Viðtal mitt á ÍNN sem frumsýnt var í gær við Pétur Pétursson, prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands er nú komið á netið og má sjá það hér. Við ræðum  meðal annars um heilagan anda, inngöngu Péturs í kaþólsku kirkjuna og kynni hans af Frans páfa. 

Guðni Th. Jóhannesson bauð sig fram til forseta í dag. Kannanir sýna að hann stendur næst því að fella Ólaf Ragnar Grímsson. Sagan kennir að Ólafur Ragnar fer oft fram úr sér eða færist of mikið í fang. Þetta vitum við sem höfum fylgst með stjórnmálastarfi áratugum saman. Margt bendir til að þetta hafi enn einu sinni gerst þegar hann tilkynnti að hann væri hættur við að hætta sem forseti og ætlaði að bjóða sig fram enn á ný eftir 20 ára setu á Bessastöðum.

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Inga Hans Jónsson sem segist hafa verið meðal þeirra sem hvöttu Ólaf Ragnar til forsetaframboðs 1996. Inga Hans telur nú sé nóg komið hjá sínum gamla félaga í forsetaembættinu. Hann vitnar í viðtal við Ólaf Ragnar í Vikunni frá 1973 þar sem hann kvartaði undan „páfakomplexum“ einstakra manna sem hafnir séu á stall eða setja sig sjálfir á stall. Þá segir Ingi Hans:

„Þetta var dapurlegt en hárrétt og er það er ekkert síður í dag. En snúningspilturinn Ingi Hans er farinn annað til að velja sér forseta. Forseta sem er í stíl við kröfu ungs fólks um breytingar og draumsýnina um hið nýja Ísland. Ég vil þakka þér fyrir þitt framlag. Framundan er framtíðin sem vonandi verður í höndum nýrrar kynslóðar með nýja drauma og nýja sýn. Við erum orðnir gamlir og eigum að víkja úr vegi fyrir ungu fólki sem langar að gera eitthvað svipað og við gerðum fyrir nærri hálfri öld. Kæri vinur, það er óþarfi að óttast komandi tíma, því framtíðin kemur hvort sem við verðum þar eða ekki, þú og ég.“

Þarna fer ekkert á milli Ólafur Ragnar hefur gengið fram af Inga Hans.