28.4.2016 12:00

Fimmtudagur 28. 04. 16

Þáttur minn á ÍNN frá í gær þar sem ég ræddi við Sigurjón Einarsson náttúruljósmyndara og Guðrúnu Jónsdóttur, forstöðukonu Safnahúss Borgarfjarðar, er kominn á netið og má sjá hann hér.

Stundum var haft á orði að tíu ár liðu frá því að eitthvað festi rætur annars staðar á Norðurlöndunum áður en það bærist hingað til landsins. Hefur þetta ekki síst verið notað til að lýsa afbrotaþróun og viðbrögðum við henni. Þessi kenning er fokin út í veður og vind þó ekki sé nema vegna hins mikla fjölda ferðamanna sem streymir nú til landsins allan ársins hring.

Efast má um að íslenska stjórnkerfið hafi lagað sig að þessum breytingum svo að ekki sé minnst á umræðuhefðina um stjórnmál og önnur málefni hér á landi. Margt bendir til að þarna sé pottur brotinn. Ein leið til að bregðast við breyttum og nýjum aðstæðum er að kalla á erlenda ráðgjafa. Fá þá til að leggja mat á ýmis lykilmál sem eru til umræðu hér. Þá er ekki átt við þá sem reyna að telja þjóðinni trú um að þeirra boðskapur sé betri en annarra heldur atvinnumenn, sérfróða á sínu sviði sem sinna ráðgjöf um heim allan við úrlausn verkefna sem eru alþjóðleg í eðli sínu en framkvæma þarf innan gildandi laga á hverjum stað.

Í fjögur ár sátum við uppi með ríkisstjórn, vinstri stjórn, sem reyndi í senn að færa klukkuna til baka, til dæmis í skattamálum, og svipta þjóðina fullveldi með aðild að ESB. Trúin á eigin getu stjórnarherranna var svo lítil að þeir töldu til dæmis ekki fært að losa þjóðina úr fjármagnshöftum nema með afsali fullveldis og aðild að ESB.

Núverandi ríkisstjórn réð þaulreynda alþjóðlega sérfræðinga til að semja við kröfuhafana svonefndu og losa þjóðina úr greipum þeirra og leggja þannig lóð á vogarskál meiri hagsældar en nokkru sinni hefur verið mæld í íslensku efnahagslífi.

Hvers vegna er ekki sama leið farin á fleiri sviðum? Hvað um nýja félagið sem á að selja „stööugleikaeignirnar“? Hvers vegna felur fjármálaráðherra ekki stjórn þess að semja við erlenda sérfræðinga um ráðgjöf við smíði sölutillagna og síðan framkvæmd þeirra? Hlutverk stjórnarinnar yrði eftirlit.

Fyrsta einkavæðing bankanna sætir enn gagnrýni vegna þess hvernig að henni var staðið. Önnur einkavæðing bankanna var framkvæmd með leynd. Þriðju einkavæðinguna ætti að framkvæma með aðild erlendra, óháðra sérfræðinga.