25.4.2016 15:30

Mánudagur 25. 04. 16

Fréttablaðið kæmi ekki út nema vegna aflandssjóða eigandans. Hvað hafa fastir álitsgjafar blaðsins um upplýsingarnar í Panama-skjölunum að segja? Helst má skilja þá Magnús Guðmundsson sem skrifar leiðara Fréttablaðsins í dag og hinn fasta mánudagshöfund blaðsins, Guðmund Andra Thorsson, á þann veg að þeim hafi ekki verið sjálfrátt sem kusu aflndsskjólin, þeir hafi verið smitaðir af þjóðfélagsmeini.

Magnús segir:

„Allt virðist þetta vera dapurleg afleiðing af hugsunarhætti sem virðist hafa haldið innreið sína í íslenskt samfélag á fyrstu árum aldarinnar. Að réttur einstaklinga til þess að græða peninga væri öllu æðri og það jafnvel á kostnað velferðar samborgara sinna og samfélags.“

Guðmundur Andri segir:

„ Samt er það augljóst að upp úr aldamótum hefur ekki verið maður með mönnum hér á landi í íslenskri auðstétt sem ekki geymdi eignir sínar í slíkum skúmaskotum, með flóknu felu­neti. Þetta var menningarástand, tákn um auðlegð og ríkidæmi, svona eins og bótox, alveg burtséð frá því hvernig það liti út. Stöðutákn. Til marks um að maður væri á fyrsta farrými þjóðlífsins.“

Með öðrum orðum Jón Ásgeir og Ingibjörg Stefanía gerðu ekki annað en allir hinir. Guðmundur Andri gengur lengra til afsökunar þeim þegar hann segir: „ Þetta var nefnilega aldrei spurning um illt innræti einstakra persóna heldur var þetta útbreiddara en svo; þetta var stefna sem sett var af stjórnmálamönnum og hugmyndafræðingum og fylgt fram af harðfylgi.“

Sökudólgarnir eru nefndir til sögunnar: stjórnmálamennirnir og hugmyndafræðingarnir! Góðviljað fólk flutti peningana sína í aflandsskjól fyrir harðfylgi þeirra. Trúir Guðmundur Andri þessu eða vill hann bara reyna að geðjast Jóni Ásgeiri?

Samhljómur álitsgjafa Fréttablaðsins nær ekki einungis til orsakanna heldur einnig til yfirbótarinnar.

Aflandsfólkið á að gera „hreint fyrir sínum dyrum“ segir Magnús og einnig á það að „svara skýrt og skilmerkilega hvaðan þetta fé er komið og hver tilgangurinn“ var með ráðstöfun þess.

Guðmundur Andri segir:

„Sá sem uppvís verður að því að geyma fé sitt utan við samfélag sitt hefur þar með fyrirgert samfélagslegri sæmd sinni. Og mun ekki endurheimta hana með frekju og ofstopa heldur auðmýkt, raunverulegri iðrun og yfirbót.“

Jón Ásgeir heldur Fréttablaðinu úti vegna eigin hagsmuna. Þeir sem enn halda sessi sem fastir álitsgjafar á blaðinu vita sín takmörk. Engu er líkara en Magnús og Guðmundur Andri hafi sammælst – er þetta lína aðalritstjórans, blaðafulltrúa Jóns Ásgeirs til margra ára?