13.4.2016 15:00

Miðvikudagur 13. 04. 16

Í dag ræddi ég við Sigríði Á. Andersen, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn verður frumsýndur kl. 20.00 í kvöld. Við fjöllum um atburði síðustu viku og stöðu mála nú.

Fyrir viku lýstu Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson yfir vilja til að koma til móts við kröfuna um að rjúfa þing og boða til kosninga haustið 2016 enda tækist ríkisstjórninni að ljúka brýnustu málum sínum. Forsætisráðherra hefur fundað með forystumönnum stjórnarandstöðuflokkanna í leit að sameiginlegri niðurstöðu.

Í gær hófu þingmenn stjórnarandstöðunnar hins vegar ræðuflutning á alþingi undir liðnum fundarstjórn forseta – ræðurnar snerust ekki um dagskrárliðinn heldur kröfðust þeir svara um kjördag!

Á sínum tíma var afstöðu Sovétmanna gagnvart vestrænum ríkisstjórnum lýst á þann veg að þeir segðu, við höldum öllu okkar en semjum um það sem er í ykkar höndum. Þetta er afstaða stjórnarandstöðunnar núna: Við höldum því sem við teljum okkar, það er að kosið verði í haust, en ákveðum líka það sem þið teljið ykkar, það er hvaða mál meirihlutinn afgreiðir.

Það var ekki látið undan kröfum Sovétmanna og veldi þeirra hrundi. Vilji stjórnarandstaðan stöðva framgang mála meirihlutans á þingi brestur forsendan fyrir kosningum í haust. Þetta er ekki flókið og hlýtur stjórnarandstaðan að skilja það.

Frekust er Birgitta Jónsdóttir, leiðtogi pírata, sem telur að formaður framkvæmdaráðs í flokki sínum hafi það hlutverk að sjá um þrifnað á flokksskrifstofunni. Í þingræðu þriðjudaginn 12. apríl sagði Birgitta:

„Þetta er óboðlegt ástand. Að ætla okkur að fara í hefðbundin þingstörf og láta eins og ekkert hafi gerst á landinu er ekki í boði. Það er bara ekki í boði. 

Látið okkur fá dagsetningu. Það kom mjög skýrt fram, forseti, á fundi forseta að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar krefjast þess að fá dagsetningu. Hér verða engin hefðbundin þingstörf fyrr en það verður gert, forseti.“

Að láta undan yfirgangi af þessu tagi er einfaldlega misþyrming á fulltrúalýðræðinu. Stjórnarsinnar á þingi verða að taka höndum saman gegn þessum hótunum um aðför að heilbrigðum stjórnarháttum.