12.4.2016 18:40

Þriðjudagur 12. 04. 16

Stjórnarandstæðingar á þingi og í fjölmiðlum grípa gjarnan til þeirra raka þegar allt um þrýtur að eitthvað yrði ekki liðið erlendis. Heitar umræður urðu í neðri deild breska þingsins í gær vegna Panama-skjalanna og stöðu Davids Camerons forsætisráðherra.

Meðal þingmanna Verkamannaflokksins sem tóku til máls var Dennis Skinner, 84 ára sem setið hefur 46 ár á þingi. Hann var harðorður í garð Camerons og sagði hann dodgy sem íslenskað er með orðunum brögðóttur; slóttugur í orðabókinni. Forseta þingsins þótti þetta ekki við hæfi og bað þingmanninn að draga orðið til baka sem hann gerði ekki heldur endurtók og sagði dodgy Dave sem íslenska má sem Dabbi bragðarefur. Við svo búið vísaði forseti þingmanninum úr salnum það sem eftir var þessa fundar.

James Kirkup, dálkahöfundur The Daily Telegraph, segir að viðbrögð forseta þingsins hafi verið rétt vegna þess að þingsköp banni þingmönnum að draga í efa markmið og heiður honour annarra þingmanna, þeir séu allir taldir honourable, háttvirtir, heiðarlegir. „Margt í þingsköpunum er dálítið galið og úrelt, þessi regla er þó ekki unnt að flokka sem gamaldags helgisiði. Í henni felst fullkomlega eðlileg aðferð til að stjórna umræðum.“

Á alþingi skulu ræðumenn jafnan víkja ræðu sinni til forseta eða fundarins en eigi ávarpa nokkurn einstakan þingmann. Kenna skal þingmann við kjördæmi hans eða nefna hann fullu nafni. Í handbók fyrir þingmenn segir: „Það er föst þingvenja að alþingismenn eru ávarpaðir á þingfundum „háttvirtur þingmaður“ („háttvirtur 11. þingmaður Suðurkjördæmis“, „háttvirtur þingmaður Jóna Jónsdóttir“) og hafa forsetar jafnan gert athugasemdir ef út af er brugðið. Á 22 sama hátt er föst venja að ávarpa ráðherra „hæstvirtur ráðherra“ („hæstvirtur forsætisráðherra“).“ Í 93. grein þingskapalaga segir:

Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert“, og nefna þau ummæli sem hann vítir. Nú er þingmaður víttur tvisvar á sama fundi og má þá forseti, með samþykki fundarins, svipta þingmanninn málfrelsi á þeim fundi.

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, „frægasta fjárglæframann heimsbyggðarinnar“ í þingræðu 4. apríl. Í þingtíðindum stendur: „(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmann að gæta orða sinna.)“ Dæmið frá London sýnir hvernig tekið hefði verið á Guðmundi í þinginu þar.