17.3.2016 15:30

Fimmtudagur 17. 03. 16

Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, skrifar forystugrein í blaðið í dag 17. mars og fjallar um reikning forsætisráðherrafrúarinnar á Bresku jómfrúareyjum sem frúin sagði frá á FB-síðu sinni þriðjudaginn 15. mars og kynnti hvernig hún hefði ráðstafað föðurarfi sínum og séreign. Gekk hún í því efni lengra en lögskylt er. Fara erlendir sérfræðingar með stjórn eignarinnar á grundvelli samnings við eigandann. Íslensk skattayfirvöld hafa verið upplýst um eignina.

Fanney Birna telur ýmislegt orka tvímælis í málinu. Í fyrsta lagi hafi í gær (!) verið samþykktar siðareglur fyrir þingmenn og segir aðstoðarritstjórinn að í ljósi þeirra beri að skoða aðkomu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að uppgjöri slitabúa bankanna. „Eiginkona hans hefur beina fjárhagslega hagsmuni af því með hvaða hætti slitabúin muni gera upp við kröfuhafa sína.“

Í öðru lagi hafi Sigmundur Davíð „lagt ríka áherslu á að íslenska krónan sé sterkur og brúkanlegur gjaldmiðill“ meðal annars þegar hann „rökstuddi kosti nýja búvörusamningsins“. Á sama tíma og hann  tali „upp krónuna“ hafi „nánasti aðstandandi hans ákveðið að hér á landi séu fjárfestingarkostir innan hafta ekki boðlegir“.

Þá segir aðstoðarritstjórinn:

„Það er ómögulegt að halda því fram að fjármál eiginkonu Sigmundar komi honum bara alls ekki við. Um er að ræða 1.200 milljónir. [...] Þannig auðæfi að Sigmundur Davíð getur verið viss um að börn hans munu í raun aldrei þurfa að vinna handtak á ævi sinni nema þau vilji. [...]

Það er hins vegar þannig með þetta mál eins og svo oft er með önnur að þrátt fyrir að hlutirnir séu löglegir er það hverjum og einum í sjálfsvald sett að ákveða hvort þeim finnist þeir siðlegir. Og hvort þeir raunverulega skipti máli.“

Erfitt er að finna í heila brú í þessum skrifum. Hafa aðgerðir stjórnvalda ekki miðað að því að skerða hlut kröfuhafa slitabúanna? Að blanda krónunni og búvörusamningnum inn í þetta mál er langsótt. Forsætisráðherrafrúin ákvað að halda arfi sínum erlendis til að halda sig frá fjárfestingum innan lands vegna starfa manns síns. Þetta fé er forgengilegt eins og allt annað og ummælin um afkomendur forsætisráðherrahjónanna eru í raun fráleit hvernig sem á er litið. Fyrst og síðast eru þetta þó hræsnisfull skrif í blaði sem er eign eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar vegna viðleitni þeirra hjóna til að bjarga málgagni sínu í rosalegasta fjármálavafstri Íslandssögunnar.

.