6.3.2016 15:00

Sunnudagur 06. 03. 16

Kosningabaráttan um formannssætið í Samfylkingunni snýst um tvennt (1) fundi Árna Páls Árnasonar, núverandi formanns, sem fer um landið og skýrir efni bréfs sem hann sendi nýlega frá sér þar sem helst er að finna ávirðingar á Jóhönnu Sigurðardóttur og þá sem sátu í ríkisstjórn með henni og (2) bónorð Helga Hjörvars, frambjóðanda til formanns, til Birgittu Jónsdóttur og pírata.

Á mbl.is er í dag sagt frá útvarpsviðtali við Helga þar sem hann sagðist „ákaflega hrifinn“ af hugmynd Birgittu um að bindandi stjórnarsáttmáli yrði gerður milli vinstri flokkanna fyrir kosningar um að þing að loknum þeim stæði í 9 mánuði og á þeim tíma yrði stjórnarskránni kollvarpað auk stjórnarráðsins:

„Ég er ákaf­lega hrif­inn af þeirri hug­mynd og að við mynd­um um leið tryggja sem allra mesta sam­stöðu inn­an þeirra flokka sem nú eru í stjórn­ar­and­stöðu. [...] Við þurf­um að byggja aft­ur upp það traust sem hef­ur tap­ast og þessi hug­mynd Birgittu er vel til þess fall­in að byggja upp traust.“

Ástæða er til að velta fyrir sér hvort Birgitta hafi talað í nafni þingflokks pírata þegar hún setti ofagreint sem skilyrði fyrir að hún byði sig fram að nýju til þings. Réttmætt er að hafa efasemdir um umboð Birgittu enda er megn andstaða innan raða pírata gegn því að hún verði oftar í framboði fyrir flokkinn. Er það mál nú í höndum vinnusálfræðings.

Birgitta getur þó huggað sig við að hún á að minnsta kosti einn opinberan stuðningsmann, Helga Hjörvar, þingflokksformann Samfylkingarinnar.

Píratar halda stefnumálavinnustofu nú um helgina.

Erna Ýr Öldudóttir, formaður framkvæmdaráðs pírata, sagði á ruv.is í dag að kennd væri þátttaka í lýðræðinu í vinnustofunni. Flokkurinn ætti fjölda stefnumála og nú lærði fólk „stefnumálavinnu“ að hætti pírata. „Það sem við erum að reyna að kenna fólki það er þátttaka í lýðræðinu og að valdefla fólk,“ sagði Erna Ýr.

Í kynningu á fundinum á vefsíðu pírata segir að allnokkrar samþykktar stefnur fjalli um efnahagsmál af ýmsu tagi, nokkrar komi að utanríkismálum, og annað sett fjalli um jafnréttismál. Hvergi er minnst á draumamál Helga Hjörvars, grundvöll hans að samstarfi við Birgittu. Það skyldi þó ekki verða stefnumál pírata?