29.2.2016 16:40

Mánudagur 29. 02. 16

Hér hefur verið gripið til margvíslegra ráða á undanförnum af opinberri hálfu til að efla kvikmyndagerð, innlenda og erlenda. Beinir fjárstyrkir hafa ráðist af álvörðunum við gerð fjárlaga og eðlilega tekið mið af stöðu ríkissjóðs hverju sinni. Þá hefur verið búið í haginn á annan hátt. Árangurinn hefur verið góður í mörgu tilliti og kvikmyndagerð hefur vaxið fiskur hrygg.

Hér skiptir Kvikmyndaskóli Íslands miklu því að rannsóknir, menntun og þjálfun ráða úrslitum um framvindu á þessu sviði eins og öðrum. Skömmu fyrir jól var gengið frá samningi ríkisins til langs tíma við einkarekna kvikmyndaskólann og fréttir hafa birst um samstarf hans við Háskóla Íslands auk þess sem skólinn hefur ákveðið að opna dyr sínar nemendum frá öðrum löndum.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er stórfyrirsögn þar sem stendur: Kvikmyndagerð er stóriðja. Í fréttinni segir að um 1.300 ársverk hafi verið í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum á Íslandi árið 2014 og jafnist hann á við þrjú stóriðjuverkefn.  Þetta segi í nýrri skýrslu Capacent Ársverk vegna greinarinnar hafi verið um 2.000 árið 2014 og launagreiðslur tæplega 13 milljarðar króna. Bein og óbein velta kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðarins á Íslandi það ár hafi alls numið um 45 milljörðum króna. Skatttekjur ríkisins af greininni voru um 12 milljarðar en á sama tíma lagði það 5,9 milljarða til kvikmynda og sjónvarps.

Magnús Guðmundsson skrifar um íslenskan kvikmyndaiðnað í forystugrein í Fréttablaðinu í dag og segir meðal annars: „Það er líka gott að hafa í huga að heimur listrænna kvikmynda er ört stækkandi fyrirbæri á heimsvísu og þar liggja ómæld tækifæri fyrir þá sem hafa þor til þess að sækja fram til nýrra sigra. Það verður forvitnilegt að sjá hvort íslenska ríkið hefur þetta þor og rænu til þess að auka margfalt fjárfestingar í þessari ört vaxandi atvinnugrein.“

Þegar textinn er lesinn um að það sé undir íslenska ríkinu komið hvort íslensk kvikmyndagerð dafni áfram vaknar spurning hvort hann sé skrifaður af gömlum vana eða vantrú á að unnt sé að halda áfram á eigin forsendum þessarar öflugu listgreinar. Það er sem betur fer hvorki undir þori né rænu ríkisins komið hvernig íslensk kvikmyndalist þróast og hvort hún höfðar til þeirra sem hafa af henni ánægju. Þar ráða þeir ferðinni sem leggja stund á listgreinina.