13.2.2016 23:55

Laugardagur 13. 02. 16

Í dag ókum við sem leið lá frá Orlando suður til Fort Lauderdale, með stuttri viðkomu á Cape Canaveral. Þaðan skjóta Bandaríkjamenn geimförum sínum og getvitunglum. Stór mannvirki og sýningarsvæði fyrir almenning blöstu við þarna á eyðilegri Atlantshafsströndinni.

Undir kvöld á bandarískan tíma birtu bandarískir fjölmiðlar á netinu fréttir um að Antonin Scalia (79 ára) hæstaréttardómari hefði fundist látinn á heimili sínu í Suður-Texas. Hann var nýkominn úr 12 daga ferð til Asíu þar sem hann flutti fyrirlestra við háskóla í Hong Kong og Singapore. Ronald Reagan Bandaríkjaforseti skipaði Scalia hæstréttardómara fyrir um það bil 30 árum.

Scalia kom til Íslands um miðjan október 2008 og hinn 18. október 2008 skráði ég hér í dagbókina:

„Klukkan 16.00 hélt Antonin Scalia, hæstaréttardómari frá Bandaríkjunum, fyrirlestur á hátíðarmálþingi Háskóla Íslands í hátíðarsal skólans í tilefni af 100 ára afmæli lagakennslu. Salurinn var þéttsetinn og gerður góður rómur að máli Scalia, enda er hann einstakur fyrirlesari.

Scalia er eindreginn talsmaður þess, að dómarar haldi sig við bókstaf laganna í dómum en fari ekki inn á svið löggjafans. Að hans mati er þróunin til þeirrar áttar og nefndi hann til marks um það bæði dóma frá Bandaríkjunum og mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg. Segir hann, að með vísan til mannréttinda telji dómarar sig geta gengið mun lengra en góðu hófi gegni í niðurstöðum sínum. Það sé ekki þeirra hlutverk að setja lög heldur kjörinna fulltrúa á þjóðþingum.“

Fyrir utan að hlusta á Scalia flytja fyrirlestur sinn efndi ég sem dómsmálaráðherra til kvöldverðar honum til heiðurs í Þjóðmenningarhúsinu. Hann er meðal eftirminnilegri gesta. Eftir Íslandsförina bauð hann þeim sem áhuga hefðu að heimsækja sig í hæstarétt Bandaríkjanna ættu þeir leið um Washington. Ég var nokkrum dögum síðar á ferð um borgina en þá gafst því miður ekki tími til að þiggja boð Scalia. Mig minnir að hópur lögfræðinga hafi gert það síðar.