12.2.2016 20:45

Föstudagur 12. 02. 16

 

Viðtal mitt við Stefán Baldursson leikstjóra á ÍNN miðvikudaginn 10. febrúar er komið á netið og má sjá það hér.

Í dag skoðuðum við aðeins einn af þeim mögnuðu görðum eða sýningar- og skemmtisvæðum í nágrenni Orlando og eiga rætur í ákvörðun Walts Disneys að láta draum sinn um slíka garða rætast hér. Við skoðuðum Eptoc-garðinn sem var opnaður árið 1982. Þar er minnst afreka mannsins á sviði tækni og vísinda auk þess sem nokkrar þjóðir hafa sýningarsvæði þar sem þær endurgera mannvirki og andrúmsloft frá eigin löndum. Norðmenn eru fulltrúar okkar Norðurlandaþjóðanna og má meðal annars sjá þarna endurgerð af stafkirkju og bryggjuhúsunum í Bergen.

Þarna er sérstakt bandarískt sýningarsvæði og í hádeginu kom þar fram fámennur kór og söng bandarísk ættjarðarljóð í um 15  mínútur. Að því búnu var 45 mínútna sýning með mikilvægum stiklum úr sögu Bandaríkjanna. Blandað var saman myndefni og framkomu þjóðkunnra Bandaríkjamanna með Benjamin Franklín og Mark Twain í aðalhlutverkum. Erfitt var í fyrstu að átta sig á hvort það væru í raun vélmenni á sviðinu sem léku þá félaga og aðra fulltrúa liðins tíma. Þarna var ekki farið dult með þjóðerniskennd eða þjóðarstolt.

Vagnstjórinn sem ók okkur úr garðinum til gististaðar átti varla nógu sterk orð til að lýsa þeirri gæfu fyrir Orlando að Walt Disney hefði valið Orange Country við Orlando sem stað fyrir garða sína.

Eitt er að hafa hugmyndaflug til að hanna þessa garða og gera þá að mest sóttu skemmtigörðum veraldar, annað að halda utan um reksturinn, allt skipulag og hreinlæti á þann einstaka hátt sem kynnast mátti í Eptoc-garðinum í dag. Það eitt að fá nasasjón af því er þess virði að heimsækja þennan einstaka stað.

Á hverju ári koma nú um 55 milljónir ferðmanna til Orlando að sögn heimamanna. Raunar virkar það af Flórída sem ég hef séð sem eitt risavaxið frístundasvæði þar sem skólabörn og eldri borgarar skemmta sér hlið við hlið.