3.2.2016 19:00

Miðvikudagur 03. 02. 16

Í dag ræddi ég við Arnbjörgu Lindu Jóhannsdóttur, grasa- og nálastungulækni, í þætti mínum á ÍNN -fumsýning kl. 20.00 á rás 20.

Eins og við var að búast er unnt að túlka það sem David Cameron, forsætisráðherra Breta, telur viðundandi grundvöll að samkomulagi um framhald aðildar Breta að ESB á margan hátt. Hafin er áróðursherferð í Bretlandi og innan ESB fyrir einhverju sem margir halda að sér niðurstaða en er aðeins rammi sem Cameron og Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, hafa kynnt opinberlega.

Með herferðinni hefur Cameron tekið frumkvæði. Í stað þess að efni málsins sé rætt velta fjölmiðlamenn fyrir sér hvort áhrifamenn innan Íhaldsflokksins feti í fótspor forsætisráðherrans eða fari eigin leið í afstöðu til þess sem greitt verður atkvæði um þegar íbúar Bretlands svara spurningunni um hvort þeir vilji vera áfram í ESB eða ekki.

Tillögur Camerons og Tusks verða á dagskrá leiðtogaráðs ESB 18. og 19. febrúar, náist samkomulag um þær þar er líklegt að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í Bretlandi í júní 2016.

Hvað gerir Boris Johnson, borgarstjóri London og þingmaður Íhaldsflokksins með seturétt í ríkisstjórn Camerons? Eða Theresa May innanríkisráðherra Breta? Um þetta er spurt.

Af breskum fjölmiðlum má ráða að aðildarsinnar séu betur skipulagðir og ákveðnari í málflutningi sínum en andstæðingar aðildar. Dugar málamiðlun Camerons og Tusks fjölmiðlum til að styðja Cameron og framhald aðildar?

Sky News birti niðurstöður könnunar á sama tíma í dag og Cameron kynnti þinginu samningsdrögin. Tveir þriðju töldu drögin slæm. Um helmingur taldi þau þess eðlis að ólíklegra væri en áður að þeir mundu styðja framhald ESB-aðildar.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, lýsti ESB-málinu sem „drama“ innan Íhaldsflokksins. Hann sagði Verkamannaflokkinn mundu styðja framhald aðildar að ESB.

Ákafi ESB-samrunasinninn Guy Verhofsdat, ESB-þingmaður frá Belgíu, sagði Breta utan evrunnar, utan Schengen-samstarfsins og mannréttindaskuldbindinga. Þeir ættu bara að fá enn einn fyrirvarann á aðild sinni til að staðfesta enn frekar tvískiptingu ESB. „Bretland án Evrópu er í sannleika sagt dvergur,“ sagði Verhofstadt, dvergur, sem gengi erinda Vladinmírs Pútíns!

Í Bretlandi segja andstæðingar Camerons að hann hafi samið eins og Chamberlain. Vísa þeir til friðkaupasamnings Nevilles Chamberlains við Adolf Hitler í München 1938 – hann naut almennrar hylli þá en er síðar talinn óhæfuverk í samskiptum ríkja