29.1.2016 19:15

Föstudagur 29. 01. 16

Ekki kemur á óvart að þeir sem urðu undir við val á stjórnarmönnum í Lífeyrissjóð verslunarmanna (LV) á vegum Verslunamannafélags Reykjavíkur (VR) geri athugasemd við hvernig að málum er staðið undir formennsku Ólafíu B. Rafnsdóttur. Lögfræðingar tveggja fráfarandi stjórnarmanna hafa tekið saman álitsgerðir fyrir umbjóðendur sína og báðir komist að þeirri niðurstöðu að aðferðin sem beitt var sé ólögmæt.

Í fyrsta lagi sé hvergi að finna heimild til að banna þeim sem bjóði sig fram til setu í stjórn LV að taka þátt í kosningu um stjórnarmenn í LV á fundi trúnaðarráðs VR. Í trúnaðarráðinu var fráfarandi formanni LV bannað að greiða atkvæði og féll þar með úr stjórninni. Segir lögmaður um þetta:

„[Að]svipta einstakling atkvæðisrétti við það eitt að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa innan félags er fyrst og fremst brot á [...] jafnræði. Slík skerðing verður ekki gerð nema fyrir henni sé skýr heimild í lögum, reglum eða samþykktum félagsins. Jafnframt yrði slík takmörkun að styðjast við málefnaleg rök eða byggja á almennum sjónarmiðum […]er kosning kjörfundar trúnaðarráðs þann 26. janúar sl. markleysa eða ógildanleg.“

Í öðru lagi hafi verið ólögmætt að framselja til ráðgjafarfyrirtækisins Hagvangs að forvelja frambjóðendur í stjórn LV úr hópi 40 félagsmanna VR sem lýstu áhuga á stjórnarsetunni. Hagvangur hafnaði 24 úr þessum hópi og skilaði lista með 16 nöfnum til stjórnar VR. Einn fráfarandi stjórnarmanna LV komst ekki einu sinni á þennan úrvalslista Hagvangs. Í áliti lögmanns þessa manns segir meðal annars:

„Miðað við þau svör sem umbjóðandi minn fékk frá fyrirtækinu [Hagvangi] þá kemur hann ekki til greina við val fulltrúa þar sem það er mat starfsmanna Hagvangs að ákveðinn fjöldi annarra umsækjanda sé hæfari en hann. Þessi svör verða ekki skilin með öðrum hætti að en val fulltrúa hafi a.m.k. að hluta verið sett í hlut þriðja aðila sem á enga stöðu að lögum til að koma að valinu og því má auðveldlega draga þá ályktun að um ólögmætt valdaframsal sé að ræða.“

Þá kemur einnig fram að svo klaufalega hafi verið staðið að framkvæmd kosningarinnar í trúnaðarráðinu að líta megi á hana sem markleysu.

Frumskylda þeirra sem valdir eru til forystu í félögum er að hafa burði til að tryggja lögmæta og lýðræðislega aðferð við val á fólki til trúnaðarstarfa. Formaður og stjórn VR hafa fallið á því prófi.