26.1.2016 15:30

Þriðjudagur 26. 01. 16

Bjarni Harðarson sagði af sér þingmennsku fyrir Framsóknarflokkinn 11. nóvember 2008 daginn eftir að upplýst var í ríkisútvarpinu kvöldið áður að hann hefði fyrir mistök framsent til fjölmiðla tölvubréf sem átti að vera til aðstoðarmanns hans. Bréfinu fylgdi bréf frá tveimur framsóknarmönnum sem gagnrýndu Valgerði Sverrisdóttur, varaformann Framsóknarflokksins, vegna ábyrgðar hennar á einkavæðingu bankanna og afstöðu hennar til Evrópusambandsins. Vildi Bjarni að aðstoðarmaður sinn sendi bréfið undir nafnleynd til fjölmiðla. Bréfið sendi Bjarni frá tölvu í þingmannsskrifstofu sinni.

Í dag segir frá því á dv.is menntamálaráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu hafi borist kvörtun frá yfirmanni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu (LRH) vegna tölvubréfs sem Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri sendi frá skrifstofu sinni til Jóns H. B. Snorrasonar, aðstoðarlögreglustjóra og saksóknara hjá LRH. Bréfið var áframsent af Jóni H. B. og fór að sögn DV á rangt netfang og til fleiri aðila en ætlað var.

Í bréfinu ræðir þjóðleikhússtjóri að sögn DV innri málefni lögreglunnar sem snerta meðal annars ágreining Jóns H. B. Snorrasonar og Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur. Í bréfinu nefnir þjóðleikhússtjóri „stelpurnar í lögreglunni“ til sögunnar, vísar til  „þessara kvenna“  og segir einnig: „Hinn góði og réttsýni lögreglustjóri er að leysa allt með stelpunum og uppræta spillingu.“ Þá vitnar Ari til þess að lekar af málum frá lögreglunni komi frá þeim konum sem séu æðstu stjórnendur.  Segir DV að með þessum orðum vísi hann til Sigríðar Bjarkar og Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, yfirmanns lögfræðideildar LRH.

Í samtali við DV lýsti þjóðleikhússtjóri bréfi sínu sem „gamanmáli“ og sagði:

 „Ég hélt að það væri stjórnarskrárbundinn réttur hvers og eins að einkasamskipti væru lögvernduð. Á hinn bóginn vil ég bæta því við að mér þykir leiðinlegt ef þessi gamanmál í einkapósti hafi orðið til þess að einhver móðgaðist.“

Þegar alþingismaður átti í hlut og framsendi fjölmiðlum fyrir mistök beiðni um leka á óvinsamlegu bréfi annarra um pólitískan samherja leysti þingmaðurinn málið með afsögn sinn. Nú hefur birst bréf háttsetts embættismanns til annars háttsetts embættismanns þar sem sneitt er að yfirmönnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra. Ráðuneyti viðkomandi embættismanna hafa fengið bréfið til athugunar, engum viðkomandi virðist koma til hugar að binda enda á málið á sama snaggarlega hátt og Bjarni Harðarson gerði – þetta er bara „gamanmál“. Hverjum skyldi vera skemmt?