24.1.2016 15:00

Sunnudagur 24. 01. 16

 

Jóhann J. Ólafsson lögfræðingur ritaði grein í Morgunblaðið 3. desember, þar stóð meðal annars:

„James Harrington (1611-1677) enskur stjórnmálahugsuður sagði á sinni tíð:

„Einveldi ríkir þegar krúnan á allt eða í það minnsta tvo þriðju af öllum landauði.  Höfðingjaveldi ríkir ef aðalsmenn eiga svipaðan hlut. Eigi almenningur tvo þriðju eða meira, ríkir lýðræði.“ […]

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands er allur þjóðarauður Íslendinga  (allar eignir landsmanna einkaeignir og opinberar eignir samanlagt)   23,3 billjónir króna.  Af þeim eru u.þ.b. 4,4 billjónir í einkaeign  en u.þ.b. 19 billjónir í opinberri eigu. Lýðræði í skilningi Harringtons er því víðs fjarri, því  eignir einstaklinga eru ekki nema um 19% en opinberar eignir um 81% af heildareignum þjóðfélagsins. Ef lýðræði ætti að vera raunverulegt þyrfti almenningur, þ.e. einstaklingarnir sjálfir að eiga  15 billjónir til að leiðrétta þennan lýðræðishalla. Ásættanlega jöfn dreifing eigna á milli einstaklinga innbyrðis yrði svo einnig að vera til staðar til að treysta lýðræði og sátt í þjóðfélaginu. […]

Þjóðaratkvæðagreiðslur og kosningar einar og sér tryggja ekki lýðræði, þegar megnið af tekjum og eignum manna er komið í hendur yfirvalda og auðmanna  endurúthlutunarþjóðfélagsins.

Er lýðræði nothæft í þjóðfélagi þar sem hið opinbera á 80% af eignum þjóðfélagsins og ráðstafar 50% af tekjum manna?“

Þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör. Augljóst er af tölunum sem Jóhann J. Ólafsson birtir að þeir sem krefjast meiri hlutdeildar ríkisins á öllum sviðum vega að svigrúmi einstaklinga og þar með lýðræði.

Hér var í gær vikið að einnota viðfangsefnum stjórnmálamanna og flokka. Þau móta í raun allar umræður um þjóðfélagsmálin og þess gætir í vaxandi mæli hve mikið traust menn setja á réttlæti þess sem Jóhann J. Ólafsson nefnir réttilega „endurúthlutunarþjóðfélagið“.

Baráttan um áhuga úthlutunarvaldsins við skiptingu opinberra fjármuna tekur á sig ýmsar myndir eins og nú má til dæmis sjá af söfnun undirskrifta undir forystu Kára Stefánssonar um að heilbrigðiskerfið njóti 11% af útgjöldum ríkisins í stað 8,7% eins og nú er, segir Kári þetta þó ekki snúast um fjármuni heldur „kærleika“.

Ráðist árangur í heilbrigðismálum af samanburði við útgjöld til þeirra í öðrum löndum vaknar spurning um gildi inntaks meginstefnu. Nóg sé að halda í hlutfallið. Um tíma var hlutfall útgjalda til grunnskóla á Íslandi hið hæsta í OECD-ríkjunum. Batnaði árangur í PISA-könnunum í réttu hlutfalli við útgjöldin? Getur einhver bent á það?