23.1.2016 16:00

Laugardagur 23. 01. 16

Ekki er óeðlilegt að rætt sé hvort ríkið eigi að einoka sölu áfengi. Hitt er sérkennilegt að ýmsir forystumenn Sjálfstæðisflokksins, ekki síst nýlega kjörinn ritari hans, skuli gera þetta mál að einskonar útslitamáli fyrir flokkinn. Það getur aldrei orðið að slíku máli því að meðal sjálfstæðismanna er ekki einhugur um það. Með því að knýja á það sem flokksmál er stuðlað að því að þrengja ímynd Sjálfstæðisflokksins – að ástæðulausu.

Í stað þess að binda sig fasta við einnota mál eins og sölu á áfengi eiga forystumenn Sjálfstæðisflokksins að árétta gildi þess fyrir þjóðina að í landinu starfi víðsýnn borgaralegur stjórnmálaflokkur með áherslu á skýra afstöðu til mála sem skipta sköpum fyrir þjóðarheildina og stöðu landsins út á við. Í því felst í raun flótti frá meginhlutverki forystumanna Sjálfstæðisflokksins geri þeir sig að skotmarki í málsvörn vegna sérgreindra viðfangsefna eins og sölu á áfengi.

Færa má rök fyrir að deilur um einkavæðingu einstakra banka snúist einnig um einnota pólitískt viðfangsefni – að ríki reki banka er í raun furðulegt pólitískt stefnumál nú á tímum og tal um samfélagsbanka er enn ábyrgðarlausara en stefna sem miðar að því að losa ríkið undan eigandaábyrgð á banka. Sé ekki sæmileg sátt um aðra hvora stefnuna er ástæðulaust að stofna til deilna og ágreinings, óbreytt ástand er besti kosturinn enda skaðist enginn á því.

Öðru máli gegnir um stefnu í efnahagsmálum, atvinnumálum, heilbrigðismálum, húsnæðismálum, menntamálum eða öryggismálum. Þar er í öllum tilvikum um mál að ræða sem marka þjóðarumgjörðina. Flokkar sem skorast undan að hafa skýra afstöðu til málaflokka af þessum toga eru til lítils gagns.

Sjálfstæðisflokkurinn getur fagnað verulegum árangri í efnahags- og atvinnumálum á þessum kjörtímabili auk þess sem umskipti hafa orðið í fjármálastjórn ríkisins. Þar hefur mest hvílt á herðum formanns flokksins, Bjarna Benediktssyni, enda hlaut hann óskorað traust á landsfundi flokksins haustið 2015.

Það er eitthvað verulega mikið að í kynningarstarfi flokksins og viðleitni hans til að afla sér fylgis að ekki takist að nýta hinn mikla árangur sem náðst hefur við að efla efnahag þjóðarinnar og atvinnulíf til að auka fylgi hans. Meginskýringin er að áherslan er á einnota mál í stað þess að marka hinar stóru línur á skýran og greinilegan hátt og segja hvert stefnir innan marka þeirra.