11.1.2016 16:15

Mánudagur 11. 01. 16

Nú er samtal mitt við Halldór Halldórsson, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, á ÍNN miðvikudaginn 6. janúar komið á netið og má sjá það hér.

Stjórnarhættir fjórflokksins sem fer með meirihluta í borgarstjórn er með ólíkindum. Ekkert af því kemst þó til skila í fjölmiðlum með þeim þunga sem verkin verðskulda. Í grein í Fréttablaðinu í dag kennir Guðmundur Andri Thorsson þá við „óða fólkið“ sem andmæla vinnubrögðum meirihlutans í flugvallarmálinu. Þetta sýnir endaskiptin sem álitsgjafar Dags B. hafa á sannleikanum til að fegra hlut hans. Hafi runnið æði á einhvern vegna flugvallarins er það á þá sem virða hvorki lög né rétt til að níðast á flugvellinum og ögra öryggi þeirra sem á völlinn treysta.

Í morgun var tilkynnt um andlát Davids Bowies. Hann var snillingur og magnaður listamaður. Ég hitti hann 20. júní 1996 þegar hann var hér á listahátíð. Þá skrifaði ég hér á síðuna:

 „Um kvöldið fórum við á tónleika Davids Bowie í Laugardalshöllinni. Var ekki annað unnt en dást að frammistöðu goðsins. Hann var tvo klukkutíma á sviðinu, þar sem allt gekk eins og vel smurð vél. Stóð hann við loforð sitt við komuna til landsins, að efna hér til góðra tónleika í tvær stundir. Fyrir okkur óvana áheyrendur á slíkum tónleikum var hávaðinn næstum óbærilegur á stundum og bassinn skall á manni eins og bylgja. Þegar við hittum Bowie og menn hans eftir tónleikana, voru þeir undrandi á því, að við hefðum ekki sett tappa í eyrun til að draga úr hávaðanum! Í stuttu samtali var Bowie eins og margir aðrir heimsfrægir menn hógvær og velviljaður. Virtist hann hafa fullan hug á að koma hingað aftur til að kynnast landinu betur í fylgd með eiginkonu sinni. 


Þegar við kvöddum hann var klukkan farin að halla í tvö eftir miðnætti og morguninn eftir var ferðinni heitið snemma morguns til Frankfurt, þar sem síðdegis átti að sinna sjónvarpsviðtölum og búa sig undir tónleika á laugardeginum. Hefur Bowie verið á sífelldu ferðalagi með tveimur stuttum hléum síðan í ágúst 1995 og haldið að meðaltali þrjá stórtónleika í viku hverri í nýju landi eða borg í hvert sinn.“