10.1.2016 15:00

Sunnudagur 10. 01. 16

Enn er ástæða til að velta fyrir sér umræðunum um aðild Íslendinga að viðskiptaþvingunum á Rússa. Nú er gert veður út af því sem Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði á Bylgjunni að morgni sunnudags 10. janúar og látið eins og hann sé ósammála flokksbróður sínum, Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra, í málinu. Er það svo þegar nánar er að gáð?

Sigurður Ingi talar á annan veg um málið en Gunnar Bragi en í raun eru þeir sammála. Sigurður Ingi leggur áherslu á nauðsyn þess að mótmæla framgöngu Rússa í Úkraínu en vill velta fyrir sér á hvaða hátt það er gert. Gunnar Bragi hefur að sjálfsögðu velt þessu fyrir sér og kynnir niðurstöðu sína á afdráttarlausan hátt. „Við erum auðvitað bara með tákn­ræn­an stuðning við vest­ræn­ar þjóðir í þessu,“ sagði Sig­urður Ingi Jó­hanns­son og einnig þetta:

„Það má hinsvegar velta fyrir sér hvort að þessi aðferðafræði sé árangursrík, skynsamleg og hvernig hún kemur við einstök lönd, einstakar greinar og einstök byggðalög. En það er að sjálfsögðu gagnákvörðun Rússa sem veldur því.“

Í lokasetningu hinna tilvitnuðu orða kemur Sigurður Ingi að kjarna málsins. Þótt aðild Íslands að þvingununum sé aðeins táknræn hafa Rússar ákveðið að snúast af meiri hörku gegn Íslendingum en öðrum þjóðum vegna þeirra. Þeir ráðast því á garðinn þar sem hann er lægstur og ljá ekki máls á neinni breytingu. Þar að auki hefur rússnesku matvælastofnuninni verið sigað á íslensk fyrirtæki og sett þau í bann.

Í frásögn mbl.is af þessum þætti á Bylgjunni segir:

„Sig­ur­jón Eg­ils­son, stjórn­andi þátt­ar­ins, sagði […] að ráðherr­ann hefði þó greini­lega efa­semd­ir í þeim efn­um [varðandi viðskiptaþvinganir] og svaraði Sig­urður Ingi því til að hann hefði al­mennt efa­semd­ir um viðskiptaþving­an­ir og ár­ang­ur­inn af þeim.“

Við nánari athugun á því sem fram fór í þessum þætti skýrist að þeir sem vilja nota hann til að skapa ágreining milli ráðherra Framsóknarflokksins í ríkisstjórninni sýnast gera það með því að vísa til útleggingar Sigurjóns Egilssonar! Hvílík fréttamennska!

Hanna Birna Kristjánsdóttir, Sjálfstæðisflokki, formaður utanríkismálanefndar alþingis, var einnig í þessum þætti og sagði til stuðnings viðskiptaþvingunum á Rússa:

„Ég veit alveg að það getur stundum kostað eitthvað að standa vörð um ákveðna hagsmuni en mér hefur fundist það skipta máli.“