6.1.2016 16:00

Miðvikudagur 06. 01. 16

Í dag ræddi ég á ÍNN við Halldór Halldórsson, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur. Verður þátturinn sýndur í kvöld klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti þangað til 18.00 á morgun.

Af mörgu er að taka þegar rætt er við oddvita minnihlutans í borgarstjórn. Undrun vekur að ekki séu í raun meiri umræður um hve hörmulega illa er að stjórn borgarinnar staðið. 

Í gær voru fréttir á forsíðum Fréttablaðsins og Morgunblaðsins um þá ákvörðun að fækka sorphirðudögum í Reykjavík en hækka gjald vegna hirðunnar um 38%.

Í Fréttablaðinu stóð:

„Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, segir ákvörðunina [í sorphirðumálum] tekna vegna umhverfisverndarsjónarmiða. Reykjavíkurborg vilji fækka ferðum sorphirðubíla um borgina, þá sé fyrirsjáanlegt að þegar fólk flokki plast sérstaklega frá almennum úrgangi minnki umfang þess. „Þessir stóru sorphirðubílar, þeirra ferðir eru færri í borginni. Þetta verður þá líka til þess að fólk hugsar sig meira um hvað það setur í almennu tunnuna. Það reynir að minnka framleiðslu heimilisins á óendurvinnanlegum úrgangi. Með þessu er Reykjavík að fara í sömu sorphirðutíðni og hin sveitarfélögin. Íbúar sem það vilja geta valið stærri tunnur en þær almennu eða jafnvel minni tunnur, eins og ég geri sjálfur sem nota spartunnuna. Sem er jafnframt ódýrasti kostur á landinu að velja.“

Spyrja má: Er ástæðan fyrir því að ekki eru ruddar götur og gangstéttar í borginni óttinn við mengun frá snjóruðningstækjunum?

Í leiðara Morgunblaðsins í gær sagði:

„Þegar umræður höfðu staðið um vaxandi vanda leigjenda tilkynntu borgaryfirvöld með fjaðraþyt og söng að þau myndu bregðast hratt við og hefja uppbyggingu leiguíbúðakerfis í stórum stíl til að bæta úr. Lengi vel gerðist lítið. En í síðustu viku var kynnt að Borgin hefði loks hafist handa með stóráform sín í leiguíbúðamálum. Um væri að ræða 50 íbúðir af 500 íbúða áfanga. Fremur lítið og fremur seint, hugsuðu margir, en töldu þetta þó sýna viðleitni. En þá kom á daginn að þessar 50 nýju leiguíbúðir væru keyptar af Íbúðalánasjóði. Þær íbúðir hefðu að vísu allar verið í útleigu og þyrfti því að byrja á því að segja 50 leigjendum upp og koma þeim með tiltækum ráðum úr íbúðunum sínum áður en hægt væri að leigja þær einhverjum öðrum 50 íbúum sama sveitarfélags!

Við Halldór ræðum þessi mál og fleiri í spjalli okkar.