29.12.2015 16:20

Þriðjudagur 29. 12. 15

Þegar á sínum tíma var haldið af stað við endurskoðun á útlendingalögunum og skipuð nefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna sem Óttarr Proppé, þingmaður, nú formaður Bjartrar framtíðar, leiddi var látið í veðri vaka að litið yrði til Norðmanna sem fyrirmyndar.

Síðan er mikið vatn til sjávar runnið og umræður um útlendingamál hafa tekið stakkaskiptum í nágrannalöndum okkar þótt annað sé uppi á teningnum á alþingi eins og sannaðist þegar fjallað var þar um málefni tveggja albanskra fjölskyldna sem vísað hafði verið úr landi, lögum samkvæmt.

Í dag berast fréttir frá Noregi um að Sylvi Listhaug, ráðherra innflytjendamála úr Framfaraflokknum, vilji tryggja að norsk útlendingalög geymi ströngustu skilyrði fyrir hælisleitendur sem fyrirfinnist í allri Evrópu. Hefur hún lagt fram 18 tillögur sem hafa að geyma 40 atriði til að herða á útlendingalögunum í því skyni að fæla hælisleitendur frá að leita til Noregs. Spár eru um að á árinu 2016 kunni 10.000 til 100.000 farand- og flóttamenn að leggja leið sína til Noregs.

Meðal þess sem felst í tillögunum er að norskir landamæraverðir geti sent alla hælisleitendur sem koma frá öðrum Norðurlöndum til baka við landamærin enda hafi verið gripið til þess ráðs í Svíþjóð. Einnig á að herða reglur um fjölskyldusameiningu, hún komi ekki til sögunnar fyrr en eftir að sá sem dvelst í Noregi hafi unnið þar eða stundað nám í fjögur ár auk þess að hafa þar heimild til búsetu. Rétt til búsetu eiga menn að geta öðlast eftir fimm ára dvöl í Noregi í stað þriggja ára nú.

Þá verður skilgreining á hugtakinu flóttamaður þrengd sem leiðir til þess að færri öðlast rétt til lífeyris og félagslegra bóta. Heimilt er að hafna umsókn um hæli ef sterk rök varðandi takmörkun á fjölda innflytjenda mæla með því. Þetta kemur meðal annars til álita leggi hælisleitandi ekki sitt af mörkum til að upplýsa hver hann er.

Frá því var greint á dögunum að fyrir lægi frumvarp í innanríkisráðuneytinu reist á tillögum hinnar þverpólitísku nefndar. Þingmenn sem sátu í nefndinni hafa kallað eftir að fá málið til afgreiðslu á þingi. Í ljósi þess hve þingmenn sem helst láta sig þessi mál varða eru víðsfjarri þeim varfærnislegu stjórnmálastraumum sem einkenna nú umræður um útlendingamál í nágrannalöndunum er ástæða til að hvetja til varúðar á pólitískum vettvangi hér.