21.12.2015 16:30

Mánudagur 21. 12. 15

Stundum sést kvartað undan því að ekki sjáist nein merki um að aðildin að Schengen-samstarfinu gagnist íslenskum stjórnvöldum eða Íslendingum almennt. Fréttin hér að neðan sýnir til dæmis hvert er gagn af aðildinni að Europol en þátttaka í Schengen-samstarfinu er lykill að aðild að Evrópulögreglunni, Europol.

Á vefsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu mátti lesa þetta fimmtudaginn 17. desember:

„Nærri 900 manns hafa verið handteknir í alþjóðlegum lögregluaðgerðum Europol og samstarfsaðila stofnunarinnar á árinu. Um er að ræða samstarfsverkefni undir heitinu Operation Blue Amber þar sem ráðist hefur verið gegn skipulagðri brotastarfsemi víða um heim, en í aðgerðunum hefur m.a. verið lagt hald á meira en 7 tonn af fíkniefnum. Íslensk lögregluyfirvöld hafa tekið þátt í fyrrnefndum aðgerðum, en í haust voru t.d. viðamiklar aðgerðir hér á landi gegn innflutningi stera, sölu, dreifingu og framleiðslu þeirra. Þá var lagt hald á mikið magn af sterum, mestmegnis í formi dufts og taflna, auk búnaðar af ýmsu tagi, m.a. til framleiðslu stera. Mál sem snýr að innflutningi mikils magns fíkniefna, sem falin voru í bifreið sem kom hingað til lands með Norrænu í haust, er sömuleiðis hluti af þessu samstarfsverkefni. […] Þess má geta að um allnokkurt skeið hefur sérstakur tengslafulltrúi Íslands verið starfandi hjá Europol og hefur það reynst mjög vel.“

Næsta sérkennilegar umræður eru nú í Bretlandi vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem David Cameron forsætisráðherra undirbýr til að ákveða framtíð Breta gagnvart ESB. Höfuðáhersla er lögð á að forsætisráðherranum hafi tekist að fleyta viðræðunum um nýja aðildarskilmála áfram á nýlegum leiðtogaráðsfundi ESB þrátt fyrir ágreining um réttindi innflytjenda til félagslegra bóta. Í þessu felst að Cameron hefur slegið af kröfum sínum enda bendir nú allt til þess að hann ætli sér að berjast fyrir áframhaldandi aðild ESB og búa til „pakka“ sem höfði til sem flestra.

Þetta er í raun algjör yfirborðsumræða þar sem ekki er rýnt í framtíð ESB og á þann klofning innan þess sem verður sífellt skýrari. Þessi hula sem sett er á hin raunverulegu stórmál innan ESB í fjölmiðlatalinu breska um tengsl Bretlands og ESB eru í ætt við aðferðina sem beitt var í frásögnum af aðildarviðræðum íslenskra stjórnvalda. Látið var sem allt gengi vel þótt ágreiningur um sjávarútvegsmál hefði strax á fyrri hluta árs 2011 leitt viðræðurnar í strand.