19.12.2015 17:30

Laugardagur 19. 12. 15

Það er holur hljómur í frétt á ruv.is þar sem haft er eftir Unni Brá Konráðsdóttur, formanni allsherjarnefndar alþingis, að ákvörðun nefndarinnar og síðar þingsins að veita tveimur albönskum fjölskyldum ríkisborgararétt sé ekki fordæmisgefandi. Í fréttinni stendur:

„Meðal þess sem vísað var til voru ákvarðanir Alþingis um að veita tveimur ríkisborgararétt án þess að þeir væru staddir hér á landi - Bobby Fischer og stráknum Jóel sem varð til með aðstoð erlendrar staðgöngumóður. 

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, sagði í samtali við fréttastofu að ákvarðanir Alþingis í þessum málum væru ekki fordæmisgefandi.“

Þarna er í fréttinni annars vegar vikið að tveimur einstaklingum sem fengu ríkisborgararétt með lögum – er það ekki gert til að nefna fordæmi? Mál Fischers og barnsins Jóels eru þó allt annars eðlis en albönsku fjölskyldnanna sem hafði verið hafnað af útlendingastofnun eftir eðlilega meðferð máls þeirra innan stjórnsýslunnar, máls sem ekki var einu sinni leitt til lykta á vettvangi stjórnsýslunnar vegna þess að fjölskyldurnar vildu það ekki.

Í krafti jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar geta fleiri albanskar fjölskyldur vísað til fordæmisins sem gefið var á alþingi í dag. Komi til þess geta þær leitað til dómstóla til að fá rétt sinn viðurkenndan því að dómstólar eiga síðasta orðið um hvort stjórnarskráin sé virt en ekki alþingi.

Samþykkt alþingis um að vega að stofnunum og regluverki sem snýr að ákvörðun um réttarstöðu útlendinga hér á landi gengur þvert á allt sem gerist um þessar mundir í nágrannalöndunum. Rannsóknir sýna að viðhorf og ákvarðanir stjórnvalda í einstökum löndum ráða miklu um hvernig straumi farand- og flóttafólks til þeirra er háttað.

Það er brýnt að innleidd verði sama framkvæmd hér og annars staðar að afgreiðsla á málum þeirra sem koma frá öruggum löndum verði innan við 48 klukkustundir. Nefndin sem lagði fram frumvarpið sem varð að lögum í dag ætti að beita sér fyrir breytingum í þessa átt, það minnkaði líkur á að samþykktin í dag yrði nýtt sem fordæmisgildi.