17.12.2015 16:00

Fimmtudagur 17. 12. 15

Í Ploërmel, bæ á Bretagne-skaga í Frakklandi, fá íbúarnir að halda í styttu af Jóhannesi Páli páfa II á torgi sem er nefnt eftir honum. Áfrýjunardómstóll stjórnsýslumála í borginni Nantes hefur komist að þessari niðurstöðu og snúið við dómi undirréttar frá 30. apríl 2015.

Styttan var reist árið 2006. Undirréttur í borginni Rennes úrskurðaði að hún skyldi fjarlægð af því að hún bryti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um aðskilnað ríkis og kirkju. Dómstóllinn taldi styttuna sjálfa ekki andstæða lögum heldur umgjörð hennar, steinbogann sem umlukti hana með stórum krossi, „tákni kristinnar trúar“, fyrir ofan höfuð styttunnar, hann væri auk þess „oflátungslegur“ efst á átta metra háum steinboganum. Fékk bæjarstjórnin sex mánaða frest til að fjarlægja styttuna og steinbogann. Hún og listamaðurinn, Rússinn Zurab Tseretli, snerust til varnar ásamt samtökunum Snertið ekki páfann minn.

Í frétt sem Stéphane Kovacs skrifar um málið í Le Figaro í dag segir að áfrýjunarrétturinn hafi fallist á þau rök verjanda bæjarfélagsins að styttan hafi áunnið sér varanlegan sess á stað sínum í Ploërmel. Samtökin Fédération de la Libre pensée – Samband frjálsrar hugsunar – sem kröfðust brottflutningsins árið 2012 hafi gert kröfu sína of seint, hún hefði átt að koma fram strax en ekki sex árum eftir að styttan var reist.

Lögfræðingur Sambands frjálsrar hugsunar býr sig undir að skjóta málinu til æðsta dómstigs innan stjórnsýslunnar. Að styttan sé á opinberum stað sé augljóst brot á lögum frá 1905 um aðskilnað ríkis og kirkju.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kvað í dag upp úrskurð og felldi úr gildi deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar 1. apríl 2014, rétt undir lok síðasta kjörtímabils, en með því var svokölluð neyðarbraut tekin út af skipulagi. Þetta sýnir enn og aftur hve illa borgaryfirvöld standa að málum í heift sinni gegn Reykjavíkurflugvelli. Hvernig væri að gerð yrði úttekt á þessari dæmalausu stjórnsýslu undanfatrin 20 ár?