16.12.2015 18:15

Miðvikudagur 16. 12. 15

 

Í dag ræddi ég við Sölva Sveinsson, fyrrv. skólameistara, í þætti mínum á ÍNN. Sölvi sendi í haust frá sér bókina Dagar handan við dægrin þar sem hann segir skemmtilega frá uppvaxtarárum sínum á Sauðárkróki. Ég kannast við ýmsa sem hann nefnir til sögunnar enda var ég í níu sumur í sveit á Reynistað í Skagafirði. Samtal okkar Sölva má sjá klukkan 20.00 (rás 20) í kvöld og á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun. Þeir sam hafa tímaflakk á myndlykli sínum geta horft á þáttinn hvenær sem þeir vilja eftir kl. 20.00 í kvöld.

Ann­arri umræðu um fjár­lög næsta árs lauk á fjórða tím­an­um í dag eftir að loks náðist sam­komu­lag  milli meiri- og minni­hlut­ans á þingi um þinghlé vegna jólanna. Sam­fylk­ing­in seg­ir í til­kynn­ingu, sem er send út vegna lykta málþófsins, að í þá átta daga og næt­ur sem 2. umræða fjárlaga hafi staðið hafi flokk­ur­inn bar­ist fyr­ir bætt­um kjör­um eldri borg­ara og ör­yrkja, farið verði að óskum yfirstjórnar Landspítalans um fjárframlög og ríkisútvarpið fái „nægj­an­leg­ar fjár­veit­ing­ar til að standa und­ir þjón­ustu við al­menn­ing um allt land“.

Þetta er augljóst yfirvarp. Það þurfti ekki átta daga og nætur til að leggja þessi mál Samfylkingarinnar undir atkvæði þingmanna heldur breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið og atkvæðagreiðslur um þær.  

Eins og sagt var frá hér í gær má rekja málþófið til hins undarlega frumvarps utanríkisráðherra um að gera þróunarstofnun að hluta af utanríkisráðuneytinu. Forvitnilegt verður að sjá hver verða örlög frumvarpsins.

Enn virðist óráðið hvað þingmenn ætla að gera vegna Albananna sem vildu ekki að mál þeirra færu til kærunefndar í útlendingamálum og sættu vig við brottvísun úr landi samkvæmt úrskurði Útlendingastofnunar.

Taki þingmenn ákvörðun um að nýta vald sitt til að veita fólkinu ríkisborgararétt vega þeir að öllu regluverki í útlendingamálum með hjáleið fyrir þá sem sætta sig ekki við afgreiðslu mála í samræmi við sett lög og reglur. Þingmennirnir vega í raun einnig að virðingu ríkisborgararéttarins. Afgreiðsla af þessu tagi mundi auk þess brjóta í bága við allt sem gerist í nágrannalöndunum í útlendingamálum. Að segja slíka ákvörðun ekki skapa fordæmi er fráleitt í ljósi ákvæða stjórnarskrárinnar um jafnræði