9.12.2015 16:05

Miðvikudagur 09. 12. 15

Bókina Utangarðs? Ferðalag til fortíðar eftir  Halldóru Kristinsdóttur og Sigríði Hjördísi Jörundsdóttur ræði ég við höfundana í þætti mínum á ÍNN sem sýndur verður kl. 20.00 í kvöld (rás 20) og síðan á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun en sífellt á tímaflakki Símans. Ugla er útgefandi þessrar forvitnilegu bókar sem er ríkulega myndskreytt meðal annar með skemmtilegum teikningum eftir Halldór Baldursson og bregðum við nokkrum þeirra á skjáinn.

Það er með nokkrum ólíkindum að Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, skuli líkja ríkisútvarpinu við skilnaðarbarn vegna þess að þingmenn koma sér ekki saman um hvort hækka eigi nefskatt til að auka tekjur þessa ríkishlutafélags sem sífellt krefst meiri fjármuna og hefur her einstaklinga til að auglýsa ágæti þess að látið sé undan stöðugum fjárkröfum félagsins. Hvers eiga börn að gjalda að vera dregin á þennan neikvæða hátt inn í þessar umræður um opinber fjármál?

Flokksformaðurinn sagði;

„Ég óttast að þetta [að nefskatturinn hækki ekki] sé bara afleiðing af einhverjum hjaðningavígum innan stjórnarflokkanna. Það séu innanflokksátök í Sjálfstæðisflokknum, þar sem hver höndin virðist vera upp á móti annarri, sem valdi því að Ríkisútvarpið er orðið eins og skilnaðarbarn í innanflokkserjum.“

Orðin bera bæði vott um smekkleysi og dómgreindarskort. Verður undarlegra með hverjum deginum sem líður að samfylkingarfólk uni við málflutning af þessu tagi.

Vandræði ráðamanna í flokki repúblíkana í Bandaríkjunum vegna Donalds Trumps og þess sem hann lætur frá sér fara magnast dag frá degi. Flokkurinn geldur þess að enginn hefur nægan styrk til að skora Trump á hólm eða menn forðast slíka hólmgöngu af því að þeir vilja ekki lenda á milli tannanna á orðháknum.

Trump er einskonar utangarðsmaður sem hefur hertekið flokk repúblíkana og nýtir sér hann sem vettvang í prófkjörsbaráttu til að viðra hugmyndir sem hann mundi aldrei geta framkvæmt dygði málflutningurinn honum til sigurs.

Í Bandaríkjunum verður það fyrir tilstuðlan Trumps sem gerst hefur í Evrópu undanfarin misseri að það sem telst eðlilegt í umræðum tekur á sig nýjan svip. Þetta má sjá hér á landi til dæmis í umræðum um ríkisútvarpið – það á miklu meira undir högg að sækja nú vegna skorts á almennum stuðningi en var fyrir fáeinum misserum. Engum öðrum verður um kennt en þeim sem ráða för hins opinbera hlutafélags.