7.12.2015 18:00

Mánudagur 07. 12. 15

Tölvuárásir eru liður í nútíma hernaði. Þær eru stundaðar sem hryðjuverk í þágu ákveðins málstaðar ef svo ber undir. Í dag sendi Hugsmiðjan viðskiptavinum svofellda tilkynningu:

„Eins og fram hefur komið í fréttum hafa vefir ráðuneytanna setið undir netárásum frá hópi sem kallar sig Anonymous. Ítrekað var ráðist á vefi tengda hvalveiðum og má gera ráð fyrir fleiri tilraunum til árása á næstunni ef marka má yfirlýsingar þeirra.

Þessar árásir eru svokallaðar DDoS árásir (distributed denial of service) sem valda miklu álagi og geta stuðlað að þjónusturofi, eftir því hversu lengi árásin varir.

Ekki var þó verið að brjótast inn til að skemma eða sækja gögn.

Búið er að virkja sérstakar varnir fyrir vefi ráðuneytanna sem hafa staðið af sér endurteknar árásir síðustu daga. Einnig höfum við sett mikla vinnu í að koma í veg fyrir að frekari árásir hafi áhrif á aðra viðskiptavini okkar.“

Árásirnar á Stjórnarráð Íslands hafa staðið í nokkrar vikur og um tíma var vefsíðu þess lokað vegna álags af hálfu hryðjuverkamannanna.

Einkafyrirtæki heldur uppi vörnum á þessu mikilvæga sviði samfélagsins og beitir til þess öllum tiltækum vopnum. Það heyrist ekki í neinum alþingismanni súpa hveljur  vegna þessa eins og þegar teknir eru í notkun nokkrir lögreglubílar með viðunandi skotvopnageymslur. Meira að segja í ríkisútvarpinu halda menn ró sinni vegna þessa og hanna ekki fréttafrásagnir í því skyni að grafa undan þessum varnaraðgerðum einkaaðila í þágu stjórnarráðsins og samfélagsins í heild.