27.11.2015 19:30

Föstudagur 27. 11. 15

Það er furðulegt að lesa eða heyra allar auglýsingarnar hér á landi sem kenndar eru við Black Friday. Þetta er föstudagurinn eftir Thanksgiving, þakkargjörðardaginn í Bandaríkjunum. Að þessi dagur skuli kalla á útsölur eða verðlækkanir hér á landi er til marks um að alþjóðavæðingin mótast mjög af menningararfi í Bandaríkjunum og hnattrænum áhrifum hans.

Engin ein skýring er á því hvers vegna menn tala um Black Friday. Bent er á að hugtakið hafi fyrst verið notað í Fíladelfíu í Pennsylvaníuríki um umferðaröngþveitið og örtröðina í verslunum eftir frídaginn vegna þakkargjörðarinnar, hafi kaupmenn þá viljað rýma fyrir jólavörunum. Önnur skýring er að verslanir hafi verið reknar með tapi fram að þessum degi en skilað hagnaði komist in the black eftir þakkargjörðina vegna þess að þá hafi jólaverslunin hafist. Hitt er sagt alrangt að þennan dag hafi menn notað til uppboða á svörtum þrælum á tíma þrælahalds í Bandaríkjunum.

Hér skal ekki tekin nein afstaða til þessara skýringa en áréttað hve einkennilegt er að þessi dagur verði dagur mikilla umsvifa í verslun hér undir þessu bandaríska heiti.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fær nýjar bifreiðar með öruggum geymslum fyrir skotvopn og ákveðið er í samræmi við gildandi reglur að nota þessar geymslur til að auka slagkraft lögreglunnar og þar með öryggi borgaranna. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, krefst sérstakrar umræðu um málið á alþingi og segist hafa verið að eltast við innanríkisráðherra á Facebook vegna þess að kvöldi fimmtudags 26. nóvember. Upphlaup Árna Páls sýnir hve langt er seilst til að vekja tortryggni í garð lögreglu og úlfúð um eðlilegar öryggisráðstafanir.

Í fréttum ríkisútvarpsins var skýrt frá því í kvöld að doktor í vinnusálfræði  teldi að fá þyrfti óhlutdrægan aðila til að stuðla að lausn samskiptavanda innan embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Vandinn stafar af því að háttsettir menn innan embættisins sættu sig ekki við að Sigríður Björk Guðjónsdóttir var skipuð lögreglustjóri. Að þeir gangi fram á þennan hátt er vissulega áhyggjuefni og vonandi tekst þeim sem valinn verður að fá þá til að sætta sig við orðinn hlut. Alkunna er að vanda af þessum toga er oft ekki auðvelt að leysa.