23.11.2015 19:15

Mánudagur 23. 11. 15

Forsætisráðherra Belga tilkynnti undir kvöld að á morgun, fjórða daginn í röð, yrði hæsta hættustig í gildi í Brussel en á miðvikudag yrðu skólar opnaðir stig af stigi og einnig brautarstöðvar fyrir lestarsamgöngur innan borgarinnar.

Greinilegt er að yfirvöld í Belgíu hafa ekki áttað sig á því sem Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, telur skynsamlegast að gera við aðstæður sem þessar. Hún lýsir því í grein í Fréttablaðinu í dag. Telur hún bestu leiðina til að sigra hryðjuverkamenn  „að styrkja menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi og tryggja öllum þjóðfélagshópum þátttöku í lýðræðislegu samfélagi“.

Þarna er sem sagt boðuð sú stefna að í stað þess að senda lögreglu inn í Molenbeek-hverfið í Brussel eða handtaka 21 mann og gera vopn upptæk eigi að opna þar félagsmiðstöð. Þeir sem hallast að þessari stefnu telja belgísk stjórnvöld líklega rekin áfram af illmennsku þegar þau fara eftir upplýsingum um bráða stórhættu og grípa til forvirkra aðgerða.

Belgíska lögreglan beindi því til almennings sunnudaginn 22. nóvember að fólk setti ekki á Twitter ef það sæi til ferða her- eða lögreglumanna. Slíkar upplýsingar kæmu þeim sem vildu dyljast eingöngu að notum. Netverjar brugðust við með því að setja fréttir og myndir af köttum á samfélagssíður. Heppnaðist þessi aðgerð lögreglunnar svo vel að hún sendi öllum köttum Belgíu formlegar þakkir fyrir stuðninginn.

Ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar um að það kynni að verða íslenskum yfirvöldum ofviða að gæta Schengen-hliðsins gagnvart Bandaríkjunum vegna fjölgunar Asíumanna yfir hafið til Íslands eru reist á undarlegum misskilningi ef forsetinn heldur að ástandið á Keflavíkurflugvelli verði nokkru sinni sambærilegt við ástandið á grísku eyjunum, ítölsku eyjunni Lampedusa eða Möltu. Asíumenn þurfa vegabréfsáritun til Bandaríkjanna og Íslands – áritunin er gefin út í sendiráði Íslands í Peking fyrir Kínverja.