19.11.2015 18:30

Fimmtudagur 19. 11. 15

Í hádeginu í dag flutti Robert Barber, sendiherra Bandaríkjanna, ræðu á fundi Varðbergs í þéttsetnum fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns. Ræðan bar fyrirsögnina Tengsl Bandaríkjanna og Íslands: Brýn öryggismál á Norður-Atlantshafi. Að loknu máli sínu svaraði sendiherrann mörgum spurningum fundarmanna.

Ég lét þess getið þegar ég setti fundinn að líklega væri þetta í fyrsta sinn í tæplega 60 ára sögu Varðbergs (stofnað 1961) og Samtaka um vestræna samvinnu (SVS) (stofnuð 1958) sem sendiherra Bandaríkjanna flytti ræðu á fundi þeirra – félögin voru sameinuð í Varðberg hinn 9. desember árið 2010.

Því má velta fyrir sér hvers vegna sendiherra Bandaríkjanna hafi ekki fyrr talað á fundi sem þessum. Á tíma kalda stríðsins voru samskiptin við Bandaríkin mikið hitamál. SVS og Varðberg stóðu vörð um varnarsamninginn við Bandaríkin og aðildina að NATO. Hefur sendiherra og forráðamönnum félaganna ekki þótt eðlilegt að bandaríska sendiráðið eða sendiherrann yrði þátttakandi í hinum flokkspólitísku deilum. Félögin efndu hins vegar oft til funda þar sem bandarískir yfirmenn Keflavíkurstöðvarinnar voru ræðumenn,

Viðhorfið til utanríkis- og öryggismála er ekki hið sama nú og fram til 1991. Tillagan að þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti að nýju á alþingi í gær er til marks um þetta. Hún er reist á niðurstöðu sameiginlegrar nefndar allra flokka og þar er áréttað að aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin séu grunnstoðir stefnunnar.

Á fundinum í dag var sendiherrann spurður hvort Bandaríkjastjórn hefði áform um að óska eftir aðstöðu fyrir herlið hér á landi í ljósi breyttra aðstæðna og aukinna hernaðarumsvifa Rússa umhverfis landið og á Norður-Atlantshafi. Sendiherrann sagði engar viðræður, hvorki formlegar né óformlegar, hafa farið fram um slíkt, hins vegar hefðu ýmsir háttsettir menn á vegum NATO og bandaríska varnarmálaráðuneytisins lagt leið sína hingað til lands undanfarið og af fréttum um þær ferðir mætti draga ályktanir um hvernig samskipti ríkjanna þróuðust á þessu sviði.

Undir lok máls sín hvatti sendiherrann Íslendinga til að ræða í hreinskilni og ítarlega um eigin öryggismál og hvað gera þyrfti til að bæta úr ágöllum ef þeir væru fyrir hendi.

Framlag sendiherrans sjálfs var gott innlegg í umræðurnar sem nauðsynlegt að fari fram hér á landi um breyttar aðstæður í öryggismálum og áhrif þeirra á það sem nauðsynlegt er að gera vegna þeirra.