13.11.2015 18:00

Föstudagur 13. 11. 15

Þátturinn á ÍNN frá 11. nóvember þar sem ég ræði við Ólaf Rastrick lektor og Valdimar Tr. Hafstein dósent við HÍ um bókina Menningararfur á Íslandi er kominn á netið og má sjá hann hér.

Meirihluti Breta segist vilja yfirgefa ESB ef marka má nýja skoðanakönnun. Kröfurnar sem David Cameron, forsætisráðherra Breta, hefur birt á hendur ESB benda ekki til þess að hann vilji að skerist í odda í viðræðum um ný aðildarskilyrði Breta. Hann ætlar greinilega að skapa eitthvert grátt svæði og vega þar salt – ólíklegt er að hann mæli nokkru sinni gegn aðild Breta að ESB. Cameron sagðist ætla að hverfa úr leiðtogasæti Íhaldsflokksins fyrir næstu þingkosningar – hann segir örugglega af sér eftir að hafa tapað þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild Breta að ESB. Hann situr ekki sam fastast eins og Jóhanna og Steingrímur J. sem töpuðu tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og sátu samt áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Nú hefur þýska ríkisstjórnin falið sendiherra sínum í Washington að mótmæla við bandarísk stjórnvöld vegna þess að þýskir þingmenn fá ekki aðgang að skjölum sem varða fríverslunarviðræðurnar milli bandarískra stjórnvalda og ESB.

Leyndarhyggjan sem einkennir þessar viðræður eykur líkur á að þær leiði aldrei til neins. Bandaríkjamenn leyfðu aðeins 139 þýskum embættismönnum að líta á hina samræmdu texta í viðræðunum þar sem lýst er sjónarmiðum beggja aðila. Textarnir voru til sýnis í sendiráði Bandaríkjanna í Berlín, aðeins milli 10.00 og 12.00 tvo daga í viku. Allir bandarískir þingmenn hafa aðgang að textunum en aðeins fáeinir ESB-þingmenn í lessal í Brussel.

Það vakti undrun og reiði margra í Bretlandi þegar haft var eftir Barack Obama að utan ESB mundu Bretar ekki njóta þessa fríverslunarsamnings. Aðferðin við samningsgerðina og talið um samninginn er í hróplegri andstöðu við allt sem krafist er á tímum opinnar og lýðræðislegrar stjórnsýslu.