6.11.2015 16:20

Föstudagur 06. 11. 15

Björk Guðmundsdóttir, söngkona, og Andri Snær Magnason, rithöfundur, boðuðu til blaðamannafundar í Gamla bíói í hádeginu í dag. :Þau sögðust ætla að nota Iceland Airwaves. tónlistardaga í Reykjavík, til að ræða við erlenda blaðamenn um hugsanlegan sæstreng frá Íslandi til Bretlands. Björk bað heimsbyggðina um stuðning gegn stefnu stóriðjustefnu ríkisstjórnar Íslands.

Margir gesta á Iceland Airwaves hafa áreiðanlega lagt leið sína hingað til að hlusta á Björk syngja eins og auglýst hafði verið. Tónleikum hennar var hins vegar aflýst hér eins og víða um heim undanfarið. Vafasamt er að aðdáendur söngkonunnar telji það sárabót að hún efni til blaðamannafundar gegn sæstreng sem enginn veit hvort verður lagður.

Úr því að Björk og Andri Snær efndu til blaðamannafundar til varnar Íslandi á tónlistarhátíð hefði verið forvitnilegt að heyra viðhorf þeirra til nýlegs myndbands söngvarans ofurvinsæla Justins Biebers sem tekið var við ýmsar viðkæmar íslenskar náttúruperlur. Megi marka vefsíðu Biebers höfðu alls 15,3 milljónir manna skoðað myndbandið síðdegis föstudaginn 6. nóvember en það var frumsýnt mánudaginn 2. nóvember.

Á visir.is segir hinn 3. nóvember í tilefni af myndbandi Biebers:

„Umræður sköpuðust um myndbandið inni á Facebook-síðu Baklands ferðaþjónustunnar. Davíð Samúelsson, leiðsögumaður og ferðaráðgjafi, velti því upp hvort við vildum auglýsa landið með þessum hætti þar sem ekki er hættulaust að fara á nærbuxunum einum klæða út í lónið [Jökulsárlón eins og Bieber gerir].


„Ég er nú aðallega svona að kveikja umræðu um þetta því við þurfum einfaldlega að umgangast íslenska náttúru af varúð. Auðvitað er frábært að fá svona rosalega mikla landkynningu í gegnum myndband Bieber en ég set spurningamerki við það að fara ofan í Jökulsárslón. Í því samhengi megum við ekki gleyma því að Justin Bieber er stórstjarna og ákveðinn „trendsetter“ og þarna er hann að gera eitthvað sem er ekki til eftirbreytni,“ segir Davíð og bendir á að ferðamönnum hafi oftar en einu sinni verið bjargað af jöklum [svo!] á lóninu eftir að hafa komist í sjálfheldu.“ 

Nýting mannsins á náttúrunni birtist í ýmsum myndum og unnt að ganga nærri henni þótt það sé ekki í þágu sæstrengs eða stóriðju.