31.10.2015 19:00

Laugardagur 31. 10. 15

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri vefritsins Kjarnans, leitast í leiðara í dag við að draga úr ótta þeirra sem hræðast örlög ríkisútvarpsins eftir birtingu svartrar skýrslu um hið opinbera hlutafélag. Hann segir að það muni lifa fram yfir kosningar 2017 og gefur til kynna að eftir það vænkist hagurinn með vinsamlegri stjórnmálamönnum.

Við núverandi aðstæður getur ríkisútvarpið ekki haft vinsamlegri ráðherra yfir sér en Illuga Gunnarsson sem hefur lofað að verja það og jafnvel auka skatttekjur þess. Erfitt er að sjá hvers meira ríkisútvarpið getur vænst af mennta- og menningarmálaráðherra.

Ríkisútvarpinu hefur mistekist að sannfæra þá sem fjalla um fjármál þess á alþingi að þörf sé á að beina auknu fé til þess og nægir í því efni að vísa til orða Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, varaformanns fjárlaganefndar.

Vigdís er þingmaður Framsóknarflokksins. Afstaða hennar til ríkisútvarpsins er allt önnur en framsóknarmannanna sem sátu í ríkisstjórn með mér frá 1995 til 2007. Þingmenn almennt tala á allt annan veg um hið opinbera hlutafélag nú en gert var um stofnunina ríkisútvarpið á árum áður. Það mun halda áfram að fjara undan þessu ríkisfyrirtæki vegna tæknilegra breytinga og vegna andrúmsins sem stjórnendur þess og starfsmenn hafa skapað í kringum það. Þeir sem helst láta í sér heyra til varnar félaginu er fólk sem á beinna og óbeinna hagsmuna að gæta.

Í leiðara Kjarnans segir Þórður Snær:

„RÚV þarf að fá skilgreint hlutverk, skilgreinda tekjustofna og óhæði frá auglýsingamarkaði. Þetta hlutverk og þessir tekjustofnar þurfa að vera skýrt skilgreindir í lögum og í kjölfarið eiga stjórnmálamenn ekki að skipta sér með neinum hætti að fyrirtækinu, svo lengi sem það heldur sér innan skilgreindra kostnaðarmarka. Það á að fá frið til að móta langtímastefnu um að sinna öflugri dagskrárgerð, menningarhlutverki og fréttaþjónustu.“

Í þessum orðum er reist á goðsögninni um að stjórnendur og starfsmenn ríkisútvarpsins hafi aldrei fengið nóg af peningum eða nægilegt svigrúm til að vinna vinnuna sína, þeir hafi í raun ekki heldur vitað til hvers væri ætlast af þeim. Hvílík firra! Nær er að halda því fram að í skjóli gerviröksemda af þessu tagi hafi mistekist að flytja ríkisútvarpið inn í nútímann og laga það að samþykktum fjárhagsramma.