30.10.2015 19:00

Föstudagur 30. 10. 15

Í breskum fjölmiðlum er hæðst að því að David Cameron forsætisráðherra hafi komið til Íslands til að reyna að búa til önd úr sex legó-kubbum, sjá hér. 

Að gert hafi verið svona mikið veður út af þessum kubbum á fundi forsætisráðherra Bretlands, Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna setur fundinn í einkennilegt ljós víðar en í Bretlandi. Ástæðulaust er að gleyma því að David Cameron lagði af mikilli alvöru til að stofnað yrði til árlegs málþings forystumanna þessara ríkja. Hann vildi með því breyta áherslum í umræðum um stjórnmál og úrlausn þjóðfélagsmála í Bretlandi. Að þessi viðleitni verði að aðhlátursefni vegna þess hvernig haldið var á málum hér á landi kann að kippa stoðum undan þessum málþingum.

Í Velvakanda Morgunblaðsins í morgun skrifaði Hans:

„Ég hef tekið eftir því í sjónvarpi og blöðum að klæðnaður á alþjóðafundum er stundum samræmdur eins og á G-8 eða G-20 fundum. Þar eru leiðtogar klæddir í skokk eða blómaflúraðar síðar skyrtur. Hálfhallærislegt, en þar sem byrjað var á þessari vitleysu komast menn ekki út úr því. Á fundinum á Grand Hotel þar sem Cameron forsætisráðherra var heiðursgestur var öllum gert að vera í stíl íslensku útrásarskuldakónganna, bindislausir og krumpaðir. Þar sem móðir mín var dönsk þótti mér vænt um að sjá að danski forsætisráðherrann lét ekki hafa sig í þetta. Getur einn af upplýsingafulltrúum forsætisráðuneytisins upplýst mig og aðra um hver sér um niðursnobbdeildina í ráðuneytinu. Hvert verður næsta skref? Allir á bolnum?“

Spurningar sem þessar eiga rétt á sér úr því að þeir sem að málþinginu stóðu sáu ástæðu til að vekja máls á eigin klæðaburði og segja frá leiknum með legó-kubbana. Áttuðu þeir sig ekki á að þeir drógu athygli að algjörum aukaatriðum með þessu? Eða var það kannski tilgangurinn af því að ekki var frá neinu öðru að segja?