23.10.2015 19:15

Föstudagur 23. 10. 15

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti efnismikla setningarræðu á 42. landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll í dag. Hann kom víða við en kjarni máls hans var að á rúmum tveimur árum kjörtímabilsins hefði tekist auka hagsæld þjóðarinnar og nú yrði að tryggja með sáttargjörð á vinnumarkaði að árangurinn yrði ekki eyðilagður á báli verðbólgunnar. Taldi hann að með góðum vilja mætti stíga markvert skref í þá átt á næstunni.

Hann sagði að við komu sína í fjármálaráðuneytið vorið 2013 hefði blasað við sér úrræðaleysi þegar litið var til afnáms haftanna. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. hefði ekki haft neina áætlun um það enda Samfylkingin sagt að aðild að ESB væri forsenda þess að höftin hyrfu en VG verið á öndverðri skoðun. Ný ríkisstjórn hefði sett slitabúum bankann afarkosti og árangur þess væri að koma í ljós – ekki væri um neina samninga við slitabúin að ræða heldur gæslu íslenskra hagsmuna. Þessi stefna hefði borið árangur.

Nú stendur ríkisstjórnin frammi fyrir ráðstöfun á tveimur ríkisbönkum Landsbanka Íslands og Íslandsbanka. Bjarni sagði meðal annars af því tilefni:

 „Mér finnst höfuðmáli skipta að eignaraðildin verði, þegar upp er staðið, dreifð. Einföld leið til að ná því markmiði og styðja við skráningu banka er að gera alla eigendur að milliliðalausum eigendum, alla landsmenn að milliliðalausum eigendum í bönkunum. Ég er að tala um það að ríkið einfaldlega taki tiltekinn hlut, fimm prósent, og einfaldlega afhendi hann landsmönnum. Með því væru komnir um 300 þúsund hluthafar í bankana og á Íslandi verður eignaraðildin ekki mikið dreifðari. Það væri jú bara að tilteknum hlut og ég ætla ekki að útiloka að það myndi þurfa að setja kvaðir á framsal slíkra eignarhluta í einhvern tíma ef efnahagsaðstæður eru með þeim hætti að menn hafa áhyggjur af eftirspurninni í hagkerfinu.“

Þessi stefna sem þarna er boðuð er í hróplegri andstöðu við þá ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar þegar hann var fjármálaráðherra að einkavæða Arion-banka og Íslandsbanka með leynd og afhenda hann nafnlausum kröfuhöfum.

Góður rómur var gerður að ræðu Bjarna og tóku fundarmenn oft undir orð hans með lófataki.