13.10.2015 16:00

Þriðjudagur 20. 10. 15

Justin Trudeau verður næsti forsætisráðherra Kanada. Hann var þriggja ára þegar ég var í fylgdarliði Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra í Ottawa og við snæddum hádegisverð hjá Pierre Elliott Trudeau, föður Justins, í opinberum forsætisráðherrabústað Kanada 27. janúar 1975. Undir málsverðinum birtust tveir litlir, léttklæddir drengir í dyragættinni, Justin, f. 25. desember 1971, og Alexander, f. 25. desember 1973. Þeir vildu hafa tal af föður sínum sem skrapp fram og sinnti þeim. Kannski voru þeir að búa sig undir hádegislúr hjá barnfóstrunni, móðir þeirra Margaret efndi á sama tíma til hádegisverðar fyrir Ernu Finnsdóttur forsætisráðherrafrú og Unni Kröyer sendiherrafrú.

Við Íslendingarnir vorum af heimleið frá ársþingi Þjóðræknisfélagsins í Winnipeg þar sem Geir talaði ásamt Haraldi Kröyer, sendiherra í Washington. Báðir fluttu þeir Geir góðar ræður yfir Vestur-Íslendingum en ræða Haraldar er þó eftirminnilegri því að í henni miðri tók hann að kveða rímur við góðar undirtektir.

Pierre Elliott Trudeau er einn hinna miklu leiðtoga Frjálslynda flokksins í Kanada við hlið Lesters B. Pearsons, forvera hans, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1957 fyrir að skipuleggja friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna og stilla til friðar við Súez-skurð. Trudeau varð 15. forsætisráðherra Kanada 1968 til 1979 og aftur 1980 til 1984. Hann kom hingað til lands 7. maí 1977 og fór þá meðal annars með Geir Hallgrímssyni til Þingvalla. Trudeau er eftirminnilegur maður og fór vel á með honum og Geir.

Justin Trudeau vann góðan sigur í þingkosningunum, hinum fyrstu sem hann leiðir fyrir Frjálslynda flokkinn, dæmigerðan miðflokk. Flokkurinn jók þingmannafjölda sinn úr 34 í 184 eða um 150 þingmenn en alls sitja nú 338 menn á þingi Kanada svo að meirihlutinn að baki Trudeau er öruggur. Hann er kennari að mennt en var kosinn á þing 2008 og að nýju 2011. Flokksformaður var hann kjörinn með glæsibrag árið 2013.

Kosningabaráttan var óvenju löng að þessu sinni í Kanada og er talið að Stephen Harper, forsætisráðherra Íhaldsmanna síðan 2006, hafi ákveðið þennan langa aðdraganda að kjördegi til að afhjúpa reynsluleysi Trudeaus. Sú baráttuaðferð misheppnaðist herfilega, reyndust klókindi sem komu Harper í koll. Hann hefur þegar sagt af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins.