16.10.2015 17:30

Föstudagur 16. 10. 15

Jóhanna síðasta orrustan kvikmynd Björns Brynjólfs Björnssonar var frumsýnd fimmtudaginn 15. október Urðarköttur skrifar um hana í Kvennablaðið föstudaginn 16. október (sjá hér ). Í umsögninni segir meðal annars:

„Hvort sem Jóhönnu líkar betur eða verr dregur kvikmynd Björns Brynjólfs upp allt annað en flatterandi mynd af henni sem forsætisráðherra. Hún virðist vera ákaflega mistækur verkstjóri, meira og minna ófær um að miðla sýn sinni til annarra, hafa afar takmarkaða stjórn á framvindu mála og einangrast mjög auðveldlega. Hún er dul og lokuð og á erfitt með að finna tilfinningum sínum farveg. Ræður hennar verða lítið annað en reiðilestrar, utan þær sem eru stofnanalegt þus. Leiftrandi er frú Jóhanna ekki, nema kannski að innan.“

Urðarköttur segir einnig í Kvennablaðinu föstudaginn 16. okróber:

„Í  myndinni er hann [Árni Páll Árnason] hégómlegur, undirförull og yfirborðskenndur, en ekki síst hreinlega lélegur stjórnmálamaður. Á örfáum dögum tekst honum að brotlenda því erfiða kjörtimabili sem Jóhönnu Sigurðardóttur dreymdi um að yrði sitt glæsilega spjald í sögunni.

Af frásögnum um myndina um Jóhönnu má ráða að tilgangur hennar sé öðrum þræði að hefna harma Jóhönnu á Árna Páli fyrir að hafa ekki sömu skoðun og Jóhanna á stjórnarskrármálinu – kannski er orðið „skoðun“ ekki rétt því að enginn veit með vissu hverju Jóhanna vildi í raun breyta í stjórnarskránni, hún vildi að því er virðist helst að ný stjórnarskrá tengdist nafni sínu á spjöldum sögunnar. Þetta mistókst hrapallega, sagan mun geyma tilraunir hennar til stjórnarskrárbreytinga sem víti til varnaðar.

Árni Páll Árnason snerist til varnar á Morgunvakt rásar 1 föstudaginn 16. október og á ruv.is er haft eftir honum:

„Mér finnst á köflum hafa gætt í umræðum um þetta mál á síðustu misserum einhverrar rétttrúnaðarherferðar - að annað hvort skrifir þú upp á heilan pakka gagnrýnislaust eða þú ert svikari, þjóðníðingur eða handbendi ráðandi afla. Þetta er bara óboðleg umræða.“

Á ruv.is segir einnig:

„Árni Páll segir komið nóg af þessari orðræðu. Ekki sé hægt að leiða umræðuna áfram á forsendum „maóískrar“ rétttrúnaðar-orðræðu. „Þar sem sumir eru góðir og aðrir vondir.““

Líklega liggur nú ljóst fyrir hver undirbjó með leynd formannsframboð Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur gegn Árni Páli á landsfundi Samfylkingarinnar.