7.10.2015 19:00

Miðvikudagur 07. 10. 15

Í kvöld ræði ég við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Vegna þess að Bjarni var á leið til útlanda í gær á fund Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var samtal okkar tekið upp um hádegisbil í gær. Það verður frumsýnt kl. 20.00 í kvöld á rás 20 og síðan sýnt á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Á tímaflakki Símans má sjá samtalið hvenær sem er eftir kl. 20.00.

Mikil harka er hlaupin í forystu- og félagsmenn þriggja félaga sem enn eiga ósamið við ríkið, sjúkraliða, SFR-fólk og lögreglumenn. Vegna deilu þessara félaga sem eru í BSRB er sagt að slitnað hafi upp úr svonefndum SALEK-viðræðum um breytta skipan kjaraviðræðna. Markmið þeirra viðræðna er að stöðva svokallað „höfrungahlaup“ í kjaraviðræðum eins og Bjarni orðar það í samtali okkar en ég kalla vítahring.  

Ég geri mér ekki grein fyrir hvort þessi þrjú félög eru síðust í „höfrungahlaupinu“, það er hvort þau vilji hoppa yfir öll félögin sem samið hafa á undan þeim eða hlotið niðurstöðu í gerðardómi – markmiðið sé á lokasprettinum að ná betri samningum en aðrir hafi gert.

Áratuga reynsla er af þessari aðferð sem enn er beitt í kjaraviðræðum og einnig afleiðingum hennar: hraði verðbólguhjólsins eykst og eyðileggur allan ávinning eldri kjarasamninga. Forsendur þeirra eru sagðar brostnar og hlaupið hefst að nýju.

Skiljanlegt er að þeir sem hafa leitt þennan leik árum, ef ekki áratugum saman, hafi fengið nóg af honum og leiti annarra úrræða en SALEK-markmiðin taka mið af reynslu Norðurlandaþjóðanna.

Af samtölum við mann sem hefur mikla reynslu af kjaraviðræðum strönduðu SALEK-viðræðurnar ekki endilega á óleystri deilu þriggja BSRB-félaga heldur á ágreiningi um lífeyrismál sem rekja má til þess þegar Ögmundur Jónasson, þáv. formaður BSRB, knúði í gegn sérréttindi fyrir BSRB-menn í lífeyrismálum sem þeir vilja ekki sleppa. Það sé með öðrum orðum um skýra sérhagsmunagæslu af hálfu BSRB að ræða og hún valdi því að ekki náist samkomulag um vinnubrögð í kjaramálum sem almennt eru talin til bóta og mundu valda löngu tímabærum þáttaskilum.

Upphrópanastíllinn í kjarabaráttunni og nú síðast hvers kyns hótanir ekki síst gegn starfsemi Landspítalans varpa skugga á samfélagið – að allt stuðli þetta síðan að eyðileggingu á kaupmætti launa staðfestir aðeins furðulegheitin.