20.9.2015 16:00

Sunnudagur 20. 09. 15

Fyrir þremur vikum sagði Birgitta Jónsdóttir á aðalfundi Pírata að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér aftur til þingstarfa nema samið yrði fyrir kosningar um stjórnarsamstarf sem gerði ráð fyrir að á sex mánuðum yrði stjórnarskránni breytt, þjóðin kysi um aðildarviðræður við ESB og stjórnarráðinu yrði gjörbylt. Kosið yrði að nýju til þings eftir níu mánuði.

Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar laugardaginn 19. september tók Árni Páll Árnason flokksformaður undir hugmyndir Birgittu og sagði að Samfylkingin ætti að „ leita samstöðu með öðrum umbótasinnuðum öflum um þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna, framhald stjórnarskrárbreytinga og aðrar nauðsynlegar grundvallarbreytingar í kjölfar næstu kosninga. Píratar hafa sett fram hugmynd um stutt þing í þessu skyni og það er hugmynd sem vert er að ræða.

Í stuttu máli kraup Árni Páll í vanmætti sínum vegna fylgisleysis á kné fyrir framan Birgittu. Fréttamaður ríkisútvarpsins virtist ekki átta sig á samhengi hlutanna þegar hann ræddi við Birgittu sunnudaginn 20. september en þann dag segir á ruv.is:

„Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata segir að svipaða tillögu og Árni Páll hafi hún lagt fram fyrir síðustu kosningar. Hún hafi falið í sér sameiginleg markmið með tilbúnum stjórnarsáttmála en engan hljómgrunn hlotið. 

„Þau hafa í það minnsta ekkert komið og rætt við okkur um þessi mál. Og ég vil líka taka það fram að mér finnst mjög mikilvægt að það komi fram að Píratar eru opnir fyrir öllum sem hafa áhuga á því að ganga bundnir að því að framfylgja því sem að við teljum að sé nauðsynlegt það er að laga gruninn að samfélaginu okkar. Það er öllum frjálst að koma að tala við okkur. Ég vil aftur á móti bara leggja höfuðáherslu á það að við erum ekki í kosningavetri. Við eigum að einbeita okkur að bara að neyðarástandi sem hér ríkir.“

Einkennilegast við þetta allt er að meira að segja Birgitta virðist í svari sínu ekki átta sig á að Árni Páll tók undir öll sjónarmið sem hún kynnti sjálf fyrir þremur vikum og sagði skilyrði framboðs síns. Var ekkert að marka þessi orð Birgittu frekar en svo margt annað sem frá henni kemur? Nú bætist pólitískt hryggbrot við önnur vandræði Árna Páls.