27.7.2015 19:00

Mánudagur 27. 07. 15

Guðmundur Andri Thorsson er fastur dálkahöfundur í Fréttablaðinu. Í dag, 27. júlí, fjallar hann um kaup Vefpressunnar á fjölmiðlafyrirtækinu Fótspor og segir meðal annars:

„Við verðum hér vitni að óvenju óskammfeilinni viðleitni að því að sölsa undir sig alla óþæga fjölmiðla í landinu til þess að stýra þjóðfélagsumræðunni; hafa áhrif á skoðanamyndun almennings.

Það er lífsafstaða í sjálfu sér að starfa við að segja og skrifa fréttir. Fjölmiðlafólk á helst ekki að hafa fullmótaðar skoðanir á nokkrum hlut og alls ekki einstrengingslegar. Það þarf hins vegar að vera tortryggið og forvitið um sannleikann og vilja bera honum vitni. Í flokkapólitík verður það að vera pólitísk viðrini. Það mætti gjarnan hafa svona þrjúhundruð og áttatíu ólíkar lífsskoðanir þar sem eitt rekur sig á annars horn, því að sannleikurinn er alltaf fullur af mótsögnum. Það má líka hafa réttlætiskennd til að bera og samlíðan með mönnunum því að of marga eineltisúlfa höfum við séð sveipa sig sannleikshempu blaðamennskunnar; það þarf að vera knúið áfram af hugsjón og þjónustulund við lesendur og hlustendur – en það má aldrei ganga í þjónustu fjármagnsafla, stórbokka, flokkapólitíkusa, valdsmanna, eða trúfélaga. Fjölmiðlafólk á ekki að aðhyllast neitt sem tekur endingunni -ismi.

Jón Ólafsson var eitt sinn ritstjóri blaðs sem hét Reykjavík. Hann skrifaði árið 1870 í blaðið sitt Baldur – og var átján ára gamall – að það væri ekki „skylda blaðamanns að fylgja áliti almennings“ heldur ætti blaðamaðurinn að vera „ráðgjafi lýðsins“. Þetta er ágæt skilgreining: að fjölmiðlarnir líti á starf sitt sem óvilhalla ráðgjöf og upplýsingagjöf sem hjálpi lesendum við að mynda sér eigin skoðanir. Það er göfug iðja.

Nú er svo komið að Sigmundi Davíð má ekki vera illa við fjölmiðil án þess að Björn Ingi hlaupi til og kaupi hann – væntanlega með fjármögnun MP-banka. Almannaheill er í húfi að strax linni loftárásum þeirra félaga á íslenska fjölmiðla.“

Þetta segir fastur dálkahöfundur blaðs sem frá 2002 hefur verið gefið út og dreift ókeypis inn á heimili í landinu til að fegra málstað Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fjársýslumanns og draga taum Samfylkingarinnar. Á dögunum var dálki Guðmundar Andra úthýst svo að Jón Ásgeir gæti gætt eigin hagsmuna undir nafni. Dálkahöfundurinn telur eiganda-anda Fréttablaðsins ríkja á öðrum fjölmiðlum.