23.7.2015 17:30

Fimmtudagur 23. 07. 15

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, gefur til kynna í grein í Fréttablaðinu í dag að meira öryggi felist í að vera með evru en íslenska krónu og vísar þar til þess sem gerst hefur í Grikklandi.

Þegar Íslendingar lentu í bankahremmingunum fyrir tæpum sjö árum sættu þeir aldrei sömu örlögum og Grikkir vegna skuldavandans nú – grískir bankar voru lokaðir í þrjár vikur! Slíkt gerist aðeins í ríkjum þar sem ekki er unnt að treysta fjármálakerfinu. Aldrei kom til þess að ekki mætti nálgast þær krónur sem Íslendingar vildu eða nota greiðslukort í almennum alþjóðlegum viðskiptum hér á landi. Seðlabanki Íslands sá um að tryggja þetta öryggi. Sjálfur grunnurinn brást í Grikklandi sem gerðist ekki hér.

Á sínum tíma hafði Árni Páll illilega rangt fyrir sér þegar hann spáði hve skamman tíma tæki fyrir ríkisstjórnina sem hann studdi að semja um aðild að ESB. Á hverju hann reisti spá sína er ekki vitað – hann sýnist nú róa á sömu mið við heimildaöflun vegna greinaflokks um ESB sem hann boðar. Að halda að slík skrif verði Samfylkingunni til bjargar sannar aðeins kreppu flokksins og formanns hans.

Talsmenn ESB hér á landi láta gjarnan eins og aðild að sambandinu verði til að losa landbúnað úr opinberum viðjum og ýta undir lágt verð á landbúnaðarafurðum. Hlálegt er að lesa hugleiðingar um þetta á sama tíma og Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, hvetur franska bændur til að lama ekki franskt þjóðlíf með kröfum sínum um hækkun á verði nautakjöts og mjólkur.

Franskir bændur efndu til mótmæla fjórða daginn í röð í dag, fimmtudag, og settu upp vegatálma við Lyon, aðra stærstu borg Frakklands. Með framhaldi mótmælanna hafa bændur í raun hafnað loforði François Hollandes Frakklandsforseta um 600 milljóna evru aukafjárveitingu til að létta undir með þeim. Bændur leggja sig fram um að skapa vandræði á vinsælum ferðamannastöðum eins og við hið fræga Mont-Saint-Michel við Atlantshafsströnd Frakklands.

Hollande kvartaði undan notkun á erlendu hráefni í frönskum veitingahúsum og sagðist ætla að reyna að selja franska mjólk í ferð til Kína í nóvember. Hvað ætli ESB-aðildarsinnar segðu um svona tal íslenskra ráðamanna? Að þeir væru afturhaldssamir þröngsýnismenn? Allt yrði á annan veg með ESB-aðild?