17.7.2015 19:30

Föstudagur 17. 07. 15

Fréttir hafa birst í ríkisútvarpinu um að hópur hjúkrunarfræðinga hafi í huga að koma á fót hjúkrunarmiðlun sem selji ríkinu þjónustu sína samkvæmt gjaldskrá. „Starfsemin gæti gert hjúkrunarfræðingum kleift að starfa hér á landi á „boðlegum kjörum“. Hjúkrunarfræðingur sem stendur að hugmyndinni telur að hún feli ekki í sér skref í átt að einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum,“ segir á ruv.is í dag.

Tekið skal undir með Sóleyju Ósk Geirsdóttur sem kemur fram fyrir hönd þeirra sem að þessu verkefni vinna að ekki er um einkavæðingu að ræða heldur snýst málið um að stofna einkafyrirtæki sem selji ríkinu þjónustu sína. Er slík einkaþjónusta þegar fyrir hendi fyrir heilbrigðiskerfið en hún virðist þyrnir í augum ýmissa innan þess ef marka má nýlegar fréttir um óánægju innan Landspítalans með samninga sjúkratrygginga við einkaaðila um rekstur sjúkrahótels.

Á næstunni verður Klínikin ehf. opnuð en fyrir skömmu ræddi ég við Sigríði Snæbjörnsdóttur, hjúkrunarfræðing og framkvæmdastjóra hennar, í þætti mínum á ÍNN eins og sjá má hér. 

Sigríður hefur langa reynslu af störfum innan hins opinbera heilbrigðiskerfis og eru viðhorf hennar til einkarekstrar á þessu sviði athyglisverð. Í sjálfu sér er ekki undarlegt að hjúkrunarfræðingar líti til þess rekstrarforms. Samfelldar fréttir af vandræðum við rekstur Landspítalans benda til þess að starfsrammi sjúkrahússins stangist á við þær hugmyndir sem starfsmenn hans hafa um kjör sín og starfsaðstæður.

Sjaldan skilar góðum árangri að lappa upp á eitthvert kerfi sem er úr sér gengið og leiðir aðeins til deilna og óánægju.

 „Þeir vilja ekki semja við okkur og meta okkur ekki eins og við gerum sjálf. Þannig að við þurfum bara að taka málin í okkar hendur,“ sagði Sóley Ósk Geirsdóttir við fréttamann ríkisútvarpsins.