29.6.2015 21:50

Mánudagur 29. 06. 15

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði á blaðamannafundi í Brussel að Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefði blekkt sig og þar með boðað þjóðaratkvæðagreiðslu um afarkosti þríeykisins í óþökk sinni. Hann hvatti Grikki til að samþykkja tilboð þríeykisins í atkvæðagreiðslunni 5. júlí sem jafngildir ósk um að Grikkir hreki Tsipras frá völdum. Haldi Tsipras velli grær ekki auðveldlega um heilt milli hans og Brusselmanna.

Árum saman hafa ESB-aðildarsinnar hér á landi talið sér trú um að endalausar viðræður við ESB muni að lokum brúa óbrúanlegt bil milli fulltrúa ESB og Íslands – það þurfi aðeins að tala meira saman til að leysa eitthvað sem er óleysanlegt nema farið sé að vilja Brusselmanna. Þetta er hið sama og Grikkir héldu þar til þeim var nóg boðið og Alexis Tsipras ákvað að leggja málið í dóm kjósenda.

Þegar allt er komið í óefni milli ríkisstjórnar Grikklands og Brusselmanna og svikabrigslin ganga á víxl segir Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, á eyjan.is:

Málið er því í erfiðum hnút. Eina mögulega leiðin virðist vera sú að halda áfram viðræðum, finna millileiðir til skemmri tíma og vinna svo að langtímalausnum í betra ráðrúmi. Minna má á að unnið var úr skuldavanda Íra með slíkum hætti; á endanum var búinn til skuldbreytinga- og afskriftapakki sem gerði að verkum að ríkissjóður Írlands getur nú fjármagnað sig sjálfur á skuldabréfamörkuðum á góðum kjörum.

Að hætta viðræðum og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta margbrotna mál með viku fyrirvara, eins og Tsipras forsætisráðherra gerði,  gagnast grískum almenningi lítt, að mínu mati. Nær væri að álykta að þar sé Tsipras að leika sér að eldinum.“

Vilhjálmur heldur með Brusselmönnum gegn grísku ríkisstjórninni. Sama viðhorf til gagnsemi viðræðna við ESB réð hjá samfylkingarforystunni fram í janúar 2013 þegar Össur Skarphéðinsson utanríkis- og umsóknarráðherra gerði hlé á viðræðunum án þess að leita samþykkis alþingi. Að ímynda sér að setja megi Íra og Grikki í sömu skúffu sýnir hefðbundið óraunsæi forystumanna Samfylkingarinnar þegar ESB á í hlut. Afstaðan er með ESB en ekki viðkomandi ríkjum – á það ekki líka við um Ísland?