27.6.2015 22:20

Laugardagur 27. 06. 15

 

Umræður um skýrslu Rögnunefndarinnar og flugvöll í Hvassahrauni bera með sér að aldrei verði ráðist í að leggja nýjan flugvöll á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Eðlilegast er að líta á niðurstöðu nefndarinnar sem hugmynd um að láti menn eins og hvorki Reykjavíkurflugvöllur né Keflavíkurflugvöllur séu starfræktir og ekki sé unnt að stunda flugrekstur frá Miðnesheiði eða Vatnsmýri sé Hvassahraun besti kosturinn.

Það undirstrikar að hér sé í raun aðeins um akademíska æfingu að ræða að athyglin beinist að aukaatriðum eins og tímamælingu á ferð sjúkrabíls frá hugsanlegu flugvallarstæði til Landspítalans – að mæla umferðarhraða við aðstæður án flugvallarins og allra mannvirkja í tengslum við hann er að sjálfsögðu markleysa. 

Eins og við var að búast hafa forráðamenn ESB og fjármálaráðherrar evru-ríkjanna brugðist illa við tillögu Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, um að bera undir grísku þjóðina hvort hún sætti sig við skilyrði þríeykisins, ESB, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fyrir frekari lánafyrirgreiðslu.

Fjármálaráðherrar evru-ríkjanna höfnuðu ósk Tsipras um greiðslufrest í eina viku eða fram yfir þjóðaratkvæðagreiðsludaginn 5. júlí – fresturinn rennur út að kvöldi þriðjudags 30. júní. Fari fram sem horfir lýkur þá samstarfi þríeykisins við Grikki, þeim ber að greiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 1,6 milljarða evru afborgun eða allt lán sjóðsins gjaldfellur.

Yannis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, sagði eftir að óskinni um framlengingu hafði verið neitað að með því hefði evru-samstarfið orðið fyrir varanlegu tjóni.

Enn er of snemmt að segja hver verða endalok þessarar evru-rimmu. Tregðan við að leiða hana til lykta á afgerandi hátt hefur verið svo mikil að ekki er unnt að útiloka enn eina ákvörðunina um að halda áfram á gráa svæðinu, þar líður ESB-forystunni best.