25.6.2015 20:00

Fimmtudagur 25. 06. 15

Nú má sjá samtal mitt á ÍNN við Sigríði Snæbjörnsdóttur, framkvæmdastjóra Klínikinnar ehf., sjá hér.  .

Árum saman hefur því verið haldið fram að þáverandi stjórnvöld hafi sýnt alvarlegt andvaraleysi með því að sjá ekki hrun bankanna fyrir og þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde var sakfelldur af meirihluta landsdóms fyrir að bóka ekki umræðu um yfirvofandi hrun bankanna á fundi ríkisstjórnarinnar eða setja málið á formlega dagskrá ríkisstjórnarinnar. Í dag féll sýknudómur í Héraðsdómi Reykjavíkur og hófst frétt um hann á þennan veg í ríkisútvarpinu:

„Héraðsdómur Reykjavíkur hafnar því að fyrrverandi stjórnendur SPRON hafi mátt sjá hrunið fyrir, þegar þeir samþykktu að lána eignarhaldsfélaginu Exista tvo milljarða króna, sex dögum áður en neyðarlögin voru sett árið 2008.“

Ber að skilja þennan dóm á þann veg að stjórnmálamenn hafi átt að hafa betri sýn á stöðu banka en bankamennirnir sjálfir?

Rögnunefndin svonefnda skilaði áliti um besta flugvallarkost í stað Reykjavíkurflugvallar. Þessi kostur er talinn í Hvassahrauni. Af því tilefni er leitað til Ómars Ragnarssonar, fyrrv. fréttamanns og þrautþjálfaðs flugmanns. Ómar sagði að hugmyndir hefðu verið um flugvöll á þessum slóðum fyrir 55 árum. Nálægð svæðisins við fjöll fyrir austan Reykjavík ylli miklu meiri ókyrrð þar en í Vatnsmýrinni. Ómar segir:

 „Niðurstaðan var því sú að það yrði hið mesta óráð að hafa flug­völl svona ná­lægt fjall­g­arðinum. Hef­ur Reykja­nes­fjall­g­arður­inn fjar­lægst og lækkað síðustu 55 árin og hef­ur vind­ur­inn minnkað?“

Hann telur að rannsaka verði kosti hins nýja vallarsvæðis betur með því að grípa til sama ráðs og gert var fyrir 55 árum að fljúga að og frá báðum vall­ar­stæðunum í al­geng­ustu hvassviðrisátt­inni á sama tíma. Þessar tilraunir eyddu umræðum um flugvöll í Hvassahrauni á þessum tíma og aftur í upphafi 21. aldarinnar. Erum við komin á núllpunkt?

Friðrik Pálsson, formaður Hjartans í Vatnsmýrinni, sem vill að Reykjavíkurflugvöllur verði á sínum stað segir að sér sé létt eftir útgáfu skýrslu Rögnunefndarinnar. Öllum markmiðum samtakanna sé náð þar sem vera Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri sé tryggð þar til aðrir kostir hafi verið kannaðir til hlítar.