23.6.2015 19:30

Þriðjudagur 23. 06. 15

Látinn er í Frakklandi 87 ára að aldri Jacques Mer sem var sendiherra Frakka á Íslandi árin 1988 til 1992. Hann hafði mikinn áhuga á íslenskum málefnum, ekki síst stjórnmálum og efnahagsmálum. Skrifaði hann mikið um þau meðal annars ritið Portrait de l‘Islande. Að loknu starfi sínu í frönsku utanríkisþjónustunni hóf hann útgáfu á Fréttum frá Íslandi á frönsku, fjölfaldaði þær reglulega og sendi þeim sem hann vildi fræða um íslensk málefni. Eftir að heilsu hans hrakaði hvatti hann Michel Sallé til að taka við keflinu af sér og heldur hann Cronique islandaise úti á netinu og sendir mánaðarlega ítarleg fréttabréf um það sem gerist hér á landi.

Ég kynntist Jacques Mer þegar hann var hér sendiherra og hitti hann nokkrum sinnum í París eftir það. Ávallt kom ég fróðari og margsvísari af hans fundi ekki síður um íslensk málefni en annað því að hann greindi atburði hér af mikilli skarpskyggni og setti í annað samhengi en aðrir. Blessuð sé minning þessa góða Íslandsvinar.

Hér velti ég fyrir mér á mánudag hvernig stæði á misræmi í frásögn af eignarhaldi á Vísindagörðum Háskóla Íslands ehf. eftir því hvort lesið er um það á vefsíðu Háskóla Íslands eða Reykjavíkurborgar. Í Morgunblaðinu í morgun birtist frétt um að Reykjavíkurborg hefði eignast nokkur prósent í hlutafélaginu um síðustu áramót. Það er því rangt á vefsíðu HÍ að félagið sé 100% í eigu háskólans.

Einkennilegt er að í fréttum um að CCP tölvuleikjafyrirtækið sé að flytja á land HÍ sem ráðstafað hefur verið til vísindagarðanna skuli ekki getið um hvaða fasteignafélag fékk umrædda lóð. Augljóst er að CCP verður leigutaki þarna með fleirum í væntanlegu stórhýsi.

Að morgni mánudags 22. júní var Birna Þórðardóttir, gömul íslensk andófskona, með tónlistarþátt á rás 1. Henni brást ekki bogalistin heldur flutti stuttan inngang um Salvador Allende, forseta Síle, sem féll eigin hendi 11. september 1973 þegar uppreisn var gerð gegn honum. Birna gaf til kynna að hann hefði verið myrtur að undirlagi Bandaríkjamanna – hann gerðist sekur um að tryggja að börn fengju mjólk, fyrir það hlaut hann að deyja sagði Birna í þessum tónlistarþætti. Hvorki hún né rás 1 brugðust hlustendum sínum.