20.6.2015 19:00

Laugardagur 20. 06. 15

Ástæðan fyrir að efnt er til athafnar við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli 17. júní ár hvert er að á sínum tíma var ákveðið að fæðingardagur hans skyldi verða stofndagur lýðveldisins Íslands og þjóðhátíðardagur Íslendinga. Athöfnin ber yfirbragð hins tvíþætta hlutverks, minnst er Jóns Sigurðssonar og lýðveldisins.

Að fámennum, háværum hópi hafi í ár tekist að varpa skugga á þessa athöfn er fyrst og síðast dapurlegur vitnisburður um skeytingarleysi mótmælenda í garð þess samfélags sem gerir þeim kleift að haga sér á þennan forkastanlega hátt. Nokkra undrun hefur vakið að lögregla skuli ekki hafa skipað þeim sem komu til athafnarinnar til að setja hana úr skorðum að halda sig á einum stað á vellinum þar sem minnst truflun yrði fyrir þá sem sóttu athöfnina til að fylgjast með dagskrá hennar. Langlundargeð hins almenna borgara gagnvart þeim sem skemma og spilla er ekki takmarkalaust.

Við hlið leiðara Fréttablaðsins birtist ritstjórnardálkur sem hér er oft nefndur húskarlahornið vegna skrifa sem þar til að þóknast eigendum blaðsins. Hinn 17. júní ritar Kolbeinn Proppé blaðamaður í hornið og segir meðal annars:

„Nonni Sig á afmæli í dag og gengur líklega nakinn í vínrauðum slopp um íbúð sína í handanheimum. Íslendingar eru svo stoltir af Jóni að við höfum gert afmælisdaginn hans að okkar þjóðhátíðardegi. Það er ekki að ástæðulausu að afmælisdagur Jóns varð fyrir valinu. Hann er holdgervingur sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, þegar Íslendingar stóðu keikir gegn oki erlends yfirvalds og brutust til síns réttborna sjálfstæðis. Eða þannig vill þjóðernissinnaða söguskoðunin hafa það. Og vissulega barðist Jón fyrir auknum réttindum Íslendingum til handa, þótt hann hafi verið meira í reikninga- og fjármálum en að berjast fyrir aðskilnaði við Dani. Jón var afskaplega leiðinlegur penni, en tvö frægustu orð sem hann lét út úr sér voru „Ég mótmæli,“ en sjaldan fylgir sögunni að næstu orð í setningunni voru „…í nafni konungs…““

Virðingarleysið sem birtist í þessum texta er í ætt við gauraganginn í mótmælendunum á Austurvelli. Hvers á Jón Sigurðsson að gjalda? má spyrja. Fullyrðingagleði eins og að Jón hafi verið „afskaplega leiðinlegur penni“ er í anda hinnar rakalausu óvildar sem oft birtist í þessu horni og er höfundi sínum til lítils sóma.